Handbolti

„Þetta leit kannski þægi­lega út því við gerðum þetta hrika­lega vel“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar í íslenska landsliðinu í handbolta fara vel af stað á EM.
Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar í íslenska landsliðinu í handbolta fara vel af stað á EM. epa/Johan Nilsson

Vel lá á Gísla Þorgeiri Kristjánssyni eftir sigur Íslands á Ítalíu, 39-26, í fyrsta leik á EM í handbolta í dag. Leikstjórnandinn var ánægður með hvernig til tókst hjá íslenska liðinu gegn því ítalska.

„Þetta leit kannski þægilega út því við gerðum þetta hrikalega vel,“ sagði Gísli í samtali við Val Pál Eiríksson eftir leikinn í Kristianstad í dag.

Klippa: Viðtal við Gísla Þorgeir

Mikið var talað um óhefðbundinn leikstíl Ítalíu í aðdraganda leiksins. Gísli hrífst af því sem Ítalir gera en segir að Íslendingar hafi leyst það vel í leiknum í dag.

„Það er ákveðin fegurð í því að láta þetta líta einfalt út þegar þetta er það svo sannarlega ekki. Fyrir mína parta gera Ítalarnir þetta hrikalega vel og það verður að hrósa þeim fyrir hvað þeir gera þetta viðstöðulaust allan tímann. Óhefðbundið eða ekki óhefðbundið? Þú spilar bara handbolta eins og þú vilt spila handbolta. Ef það er árangursríkt er það gott en ef það er ekki þannig er það bara þannig,“ sagði Gísli.

„Við gerðum lítið af tæknimistökum. Það er stór plús þegar þeir spila svona framarlega, að við séum ekki að missa boltann og fá einföld mörk í bakið. Þetta var mjög agaður leikur af okkar hálfu. Við vorum með gott leikplan. Auðvitað var smá stress og fiðringur fyrir leik og í byrjun en það var mikilvægt að við héldum okkar striki og héldum áfram samkvæmt leikplani og gerðum þetta hrikalega vel.“

Gísli segir að biðin eftir fyrsta leik á EM hafi verið löng.

„Svo sannarlega. Maður vildi byrja þetta. Þetta er byrjað núna og byrjar vel en núna tekur við endurheimt, horfa á leikinn hjá þeim (Pólverjum) og vera klárir í aðra baráttu ekki á morgun heldur hinn,“ sagði Gísli.

Hann bar sig vel eftir leikinn, þrátt fyrir mikil átök.

„Ég er þreyttur en þetta er bara partur af stórmótum. Maður er orðinn vanur þessu. Maður er bara í takti hvað varðar endurheimt, hugsa vel um skrokkinn, borða vel og allar þessar klisjur. Núna er það bara næst á dagskrá,“ sagði Gísli.

Viðtalið við Gísla má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

„Höllin var æðisleg“

Janus Daði Smárason átti mjög góðan leik með íslenska landsliðinu í kvöld og var valinn besti maður leiksins af mótshöldurum. Janus Daði kom inn af bekknum og skilaði átta mörkum úr níu skotum og bætti við fimm stoðsendingum.

„Átti alveg von á því að þetta tæki lengri tíma“

„Ég er bara mjög ánægður með liðið. Mér fannst þetta frábær leikur og góður sigur af okkar hálfu“ sagði landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson eftir mjög öruggan 39-26 sigur gegn Ítalíu í fyrsta leik Íslands á EM. Hann byrjar nú að undirbúa liðið fyrir næsta leik gegn Póllandi en það verður eilítið erfitt.

„Við vorum búnir að kortleggja þá“

„Mér fannst við tækla þetta mjög vel“ sagði Elvar Örn Jónsson eftir 39-26 sigur gegn óhefðbundnu liði Ítalíu í fyrsta leik Íslands á EM í handbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×