Innlent

Hneykslan meðal kennara vegna rangfærslna Ingu í Kast­ljósi

Jakob Bjarnar skrifar
Inga Sæland tók við sem mennta- og barnamálaráðherra af Guðmundi Inga Kristinssyni á sunnudaginn. Hún mætti í Kastljós í gær til að svara spurningum um menntamálin, málaflokki þar sem hún ætlar að láta til sín taka.
Inga Sæland tók við sem mennta- og barnamálaráðherra af Guðmundi Inga Kristinssyni á sunnudaginn. Hún mætti í Kastljós í gær til að svara spurningum um menntamálin, málaflokki þar sem hún ætlar að láta til sín taka. Vísir/Vilhelm

Viðtal við Ingu Sæland, nýjan mennta- og barnamálaráðherra, í Kastljósinu í gærkvöldi, hefur valdið verulegri gremju meðal grunnskólakennara landsins. Rangfærslur og fullyrðingar um einkunnakerfi í grunnskólum vekja hneykslan. Hún er meðal annars sögð fremst í upplýsingaóreiðu.

Það var Urður Örlygsdóttir fréttamaður sem ræddi við Ingu í Kastljósi. Ráðherrann var greinilega harðákveðin í að láta til sín taka og ætlaði sannarlega ekki að láta spyrilinn komast upp með neitt múður. En eitt og annað sem Inga sagði stenst illa skoðun. Til að mynda fór hún með rangt mál um einkunnakerfið í grunnskólum landsins og hlustaði ekki á spyrilinn sem setti spurningamerki við fullyrðingar hennar.

Þá virtist Inga rugla saman hinni svokölluðu Finnsku leið og Kveikjum neistann, sem er þróunarverkefni í Eyjum.

Brot úr viðtalinu, þar sem Inga ræðir einkunnakerfi í grunnskólum, má sjá að neðan.

„Kveikjum neistann er EKKI Finnska leiðin. Kveikjum neistann er þróunarverkefni til 10 ára, það byrjaði árið 2021. Þær tillögur sem hafa komið frá ráðherra síðustu daga eru reyndar almennt þvert á Finnsku leiðina,“ segir Álfhildur Leifsdóttir grunnskólakennari á Sauðárkróki.

Álfhildur Leifsdóttir

Kennarar upplifa gremju og eru sorgmæddir

Mjöll Matthíasdóttir er formaður Félags grunnskólakennara og hún segir varðandi bókstafakerfi að þar fari eitthvað á milli mála. 

Inga sagði í Kastljósi að bókstafakerfi í einkunnum væri aðeins notað í 10. bekk hér á landi. Það er vissulega notað í 10. bekk en líka í bekkjunum þar fyrir neðan. Urður þáttastjórnandi efaðist í tvígang um þessa fullyrðingu Ingu en mátti sín lítils.

Þá sagði Inga að hægt væri að gefa einkunnir í litum. Hins vegar dytti engum í hug að gera það. Það er þó vel þekkt í yngstu bekkjum grunnskóla landsins.

„Bókstafir eru í aðalnámskrá grunnskóla og þar eru gefin upp matsviðmið fyrir 4., 7. og 10. bekk. Út frá þeim eiga skólarnir að útfæra matsviðmið í öllum árgöngum. Aðalnámskrá grunnskóla hefur reglugerðarígildi, auglýst þannig, gefin út af ráðuneyti og skólum ber að fara eftir henni.“

Mjöll Matthíasdóttir, formaður Félags grunnskólakennara.vísir/einar

Mjöll segir þetta staðreyndir málsins. Hún kannast mjög vel við gremju meðal kennara með viðtalið við Ingu.

„Ég held að það bærist mikil tilfinningaflóra meðal kennara, þeir upplifa gremju og eru sorgmæddir, það er öll flóran. Þú sérð það af ummælum sem fallið hafa á samfélagsmiðlum, fólk hefur ekki legið á skoðunum sínum.“

Mikilvægt að kennarasamfélagið og ráðherra tali saman

Mjöll segir að nú séu kennarar komnir með nýjan ráðherra sem skólasamfélagið þurfi að eiga samtal við.

„Margt sem hægt væri að fara í úrbætur á í skólamálum. Það þurfum við að gera saman og í samtali þannig að þessi upptaktur er svolítið brattur,“ segir Mjöll og vísar til Kastljósviðtalsins;

„Samstarfið í að ná árangri skiptir öllu, við náum ekki árangri í breytingum og umbótum nema við göngum öll í takt og að kennarasamfélagið sé með.“

Því sé mikilvægt að fólk taki höndum saman.

„Fræðin og dæmin sýna okkur endalaust að þær breytingar sem boðað er til með yfirvaldsboðun komast síður til framkvæmda og skila síður árangri. Þess vegna er svo mikilvægt að þetta sé gert í samtali. Það er lykilatriði. Og við erum til í samtal við ráðamenn hvenær sem er og þeir vita hvar við erum.“

Skammastu þín kennaraskömm

Eins og áður sagði eru kennarar afar ósáttir við framgöngu Ingu og þá þykir þeim sem Ingu, sem boðar það að drengjum sé kennt að lesa, skorti sjálfa læsi á málefni ráðuneytisins. 

Það kom skýrt fram í viðtali sem RÚV átti við Rannveigu Oddsdóttur, dósent í kennaradeild Háskólans á Akureyri, en hún er afar gagnrýnin á málflutning Ingu.

Þá virðist Álfhildi sem staðreyndum sé snúið á haus í þessari umræðu og virðing fyrir kennurum, sem Inga nefndi að væri mikilvæg, væri afar sérstök svo ekki sé meira sagt. Hún birti í því samhengi talskilaboð sem henni bárust eftir að hún hafði gagnrýnt Ingu þar sem henni voru ekki vandaðar kveðjurnar.

„Skammast þú þín Álfhildur Leifsdóttir grunnskólakennari, að þú skulir vera að drulla yfir hana Ingu Sæland," segir kvenmannsrödd. Hún er sannfærð um að Inga sé að fara að taka til hendinni: „Og skammastu þín, kennaraskömm.“

Brotið má heyra hér að neðan.

Álfhildur segist aldrei hafa hitt téða konu né rætt við. „Bara svona raunveruleikatjékk hvernig það er að vera kennari - en vonandi ekki algeng hegðun því þetta er galið.“

Segir Ingu fremsta í upplýsingaóreiðu

Ingólfur Gíslason lektor við menntavísindasvið Háskóla Íslands er meðal þeirra sem stungið hafa niður penna á Facebook.

„Leitt þegar ráðherrar eru fremstir í flokki upplýsingaóreiðu og falsfrétta. Ég er að tala um Ingu Sæland,“ segir Ingólfur. 

„Það er með ólíkindum hve margar rangar fullyrðingar hún fór með í Kastljósi í gær. Bara hrein þvæla. Frekar erfitt að byggja menntastefnu á vanþekkingu, ranghugmyndum og óskhyggju. Líka frekar fráhrindandi að ráðherra hafi ekki þá auðmýkt og skilning að hún verður ekki sérfræðingur í málum (hér: menntamálum) á einum degi, viku, mánuði eða nokkrum árum þess vegna. Og því samhliða að halda, eða gefa í skyn, að kennarar og aðrir sem vinna að menntamálum og rannsóknum á þeim séu annaðhvort hálfvitar eða beinlínis að vinna gegn markmiðum náms (eins og læsi).“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×