Skoðun

Hækkum endur­greiðslu virðis­auka­skatts af vinnu iðnaðar­manna

Jón Sigurðsson og Pétur H. Halldórsson skrifa

Meistaradeild Samtaka iðnaðarins telur nauðsynlegt að bregðast við aukinni eftirspurn eftir svartri atvinnustarfsemi og vill koma á framfæri skýru ákalli til stjórnvalda um að hækka hlutfall endurgreiðslu virðisaukaskatts til að styðja við heilbrigðari starfsumhverfi í mannvirkjagerð. Með því að hækka endurgreiðsluna munu stjórnvöld bæta skattheimtu af greininni og um leið auka neytendavernd á markaðnum. Áður hefur þessi leið sýnt góðan árangur sem hefur margþætt jákvæð áhrif fyrir mismunandi hagaðila á markaði og aukna fagmennsku.

Mikill ávinningur fyrir samfélagið ef stjórnvöld hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts aftur í 100%

Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu manna á verkstað lækkaði nánast fyrirvaralaust 1. júlí 2023 í 35% og hefur staðið þar óbreytt til dagsins í dag. Lækkun á endurgreiðslu hafði óneitanleg í för með sér óvænta og umtalsverða hækkun á byggingarkostnaði á sama tíma og stjórnvöld kölluðu eftir hagkvæmri húsnæðisuppbyggingu frá iðnaðinum.

Í dag er staðan sú að endurgreiðslan vegur mun minna en áður á móti kostnaði. Samhliða því hafa aðrar álögur í byggingariðnaði, t.d. byggingarréttargjöld og gatnagerðargjöld, hækkað verulega og sum langt umfram byggingarvísitölu, en nýleg greining SI fjallar ítarlega um það. Samhliða hækkun á húsnæðisverði hefur arðsemi fyrirtækja í húsnæðisuppbyggingu minnkað, en hagnaður greinarinnar var 6,2% af tekjum í fyrra samanborið við 7,3% í viðskiptahagkerfinu. Árið 2022 var hagnaðarhlutfallið 10,5% og hefur þannig lækkað umtalsvert, meðal annars vegna mikillar hækkunar á gjaldtöku sveitarfélaga. Þessi staða dregur mikið úr hvata til húsbyggingar á tímum þar sem þörf er á mikilli uppbyggingu og hagkvæmu húsnæði.

Við upptöku virðisaukaskattskerfisins árið 1988 var gerð sú veigamikla breyting að virðisaukaskattur lagðist á vinnu iðnaðarmanna á byggingarstað sem hækkaði byggingarkostnað á einu bretti um 5-7%. Löggjafanum var ljóst að nauðsynlegt væri að ráðast í sérstakar aðgerðir til að vega upp á móti þessari hækkun til að tryggja að húsbyggjendur myndu ekki skaðast af álagningu virðisaukaskattsins. Á þeim tíma var stjórnvöldum ljóst að breytingar á gjaldtöku gætu haft alvarlegar afleiðingar á byggingarkostnað og ýta undir hækkun húsnæðisverðs. Því var ákveðið að sá tekjuauki sem af þessu leiddi skyldi renna óskiptur aftur til húsbyggjenda, með endurgreiðslu á vinnulið iðnaðarmanna á verkstað.

Hagur stjórnvalda af 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts á viðhald

Þá hefur endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu iðnaðarmanna við viðhald fasteigna reynst áhrifaríkt tæki fyrir stjórnvöld til að sporna gegn svartri atvinnustarfsemi og auka skatttekjur ríkisins til lengri tíma. Reynslan sýnir að þegar endurgreiðslan var 100% nutu bæði neytendur, fyrirtæki og samfélagið allt ávinningsins.

Þegar full endurgreiðsla var í gildi voru neytendur mun líklegri til að nýta sér úrræðið og kaupa þjónustu löglegra aðila. Með því var dregið úr hvata til að eiga viðskipti utan kerfisins og jafnframt stutt við einyrkja og minni fyrirtæki sem starfa fyrst og fremst við viðhald. Á þessum markaði eru faglærðir iðnaðarmenn oft í samkeppni við réttindalausa aðila og svarta atvinnustarfsemi, þar sem hagur neytenda er fyrir borð borinn. Endurgreiðsluátakið dregur í eðli sínu úr slíkum viðskiptaháttum og styður við fyrirtæki sem starfa eftir lögum og reglum og greiða skatta til samfélagsins.

Í skýrslu starfshóps um umfang skattaundanskota og tillögur til aðgerða frá árinu 2017 kemur fram að af þeim málum sem hafa komið inn á borð ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra hafi skattaundanskot verið hvað algengust í byggingariðnaði. Átakið Allir vinna, sem stóð yfir á árunum 2009–2015, hafði hins vegar mælanlega jákvæð áhrif á skattaskil í greininni og þar með tekjur ríkissjóðs. Í þessu samhengi benti Skúli Eggert Þórðarson, þáverandi ríkisskattstjóri, á að með því að gefa vinnu ekki upp kæmi kaupandi sér hjá því að greiða virðisaukaskatt og seljandi gæti jafnframt komist hjá því að gera söluna upp til tekjuskatts. Þegar endurgreiðslan er 100% hverfur hins vegar ávinningur kaupanda af því að vera í viðskiptum utan kerfisins. Afleiðingin er aukin skráning viðskipta og þar með bætt tekjuskatts- og virðisaukaskattsskil greinarinnar.

Í ársbyrjun 2015 var endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu iðnaðarmanna lækkuð úr 100% í 60%, eftir að Allir vinna átakið hafði verið í gildi frá árinu 2009. Ári síðar, árið 2016, fór að bera á auknu skattaundanskoti í byggingariðnaði. Þá fækkaði umsóknum um endurgreiðslu um tæp 60% á sama tíma og umsvif í byggingariðnaði jukust verulega. Þessi þróun bendir skýrt til þess að lægra endurgreiðsluhlutfall dragi úr þátttöku í kerfinu og ýti undir óskráða starfsemi. Í umræðum á Alþingi 1. febrúar 2016 um skatteftirlit og skattrannsóknir tók Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra, sérstaklega fram að afleiðingar af niðurfellingu átaksins hefðu verið neikvæðar og virtust ekki hafa gefið góða raun. Engin ástæða er til að ætla að áhrifin verði önnur nú þegar endurgreiðslan er mun lægri.

Að lokum

Takmarkaður ávinningur af endurgreiðslu virðisaukaskatts ýtir undir svarta atvinnustarfsemi sem er raunveruleg og vaxandi ógn við öryggi, gæði og traust í mannvirkjaiðnaði. Neytendur verða sífellt oftar fyrir barðinu á aðilum sem hvorki standa við ábyrgð né uppfylla gæðakröfur. Félagsmenn í Meistaradeild Samtaka iðnaðarins finna fyrir þessum áhrifum daglega og þurfa í auknum mæli að bregðast við afleiðingum ófaglegra vinnubragða. Með því að hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts á viðhald aftur í 100% geta stjórnvöld gripið til markvissrar aðgerðar sem styður við löglega starfsemi, bætir skattskil, verndar neytendur og styrkir fagmennsku í byggingariðnaði. Það er ekki aðeins hagur greinarinnar, heldur hagur samfélagsins alls. Við hvetjum því stjórnvöld til að hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts á vinnu iðnaðarmanna á verkstað án frekari tafa.

Jón er formaður Meistaradeildar Samtaka iðnaðarins og Pétur er varaformaður Meistaradeildar Samtaka iðnaðarins.




Skoðun

Sjá meira


×