Viðskipti innlent

Um fimm pró­senta hækkun fast­eigna­verðs spáð á árinu

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Páll Pálsson fasteignasali fór yfir horfurnar á fasteignamarkaði.
Páll Pálsson fasteignasali fór yfir horfurnar á fasteignamarkaði. Bylgjan

Páll Pálsson fasteignasali segir að fasteignamarkaðurinn sé eiginlega tvískiptur eins og staðan er í dag. Eldri eignir seljist vel á meðan nýbyggingar seljist mun hægar. Hann telur mikinn verðmun skýra þessa stöðu en önnur mál eins og bílastæðaskortur hafi einnig áhrif.

Páll fór yfir sviðið og hofurnar á fasteignamarkaði í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Fram kom í viðtalinu að greiningardeildir bankanna væru að spá frá fjögur til sex prósenta hækkun fasteignaverðs á árinu, og sagðist Páll telja spárnar raunhæfar og vel rökstuddar.

Nýbyggingar of dýrar

Páll segir nýbyggingar séu sennilega of dýrar og það útskýri stöðuna á markaðnum.

„Meðalfermetraverð í fyrra í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu var í kringum 800.000. Og það hefur oft verið sagt að það má ekkert vera meiri en svona fimmtán prósenta munur á eldri eignum og nýbyggingum.“

„En þegar að nýbyggingarnar eru auglýstar, margar hverjar, á milljón til 1.200.000 fermetrinn, þú veist, 100 fermetra íbúð þá á 100 milljónir, 110, eða 120. Á meðan getum við fengið kannski notaða 100 fermetra íbúð fyrir kannski 80 og 85 milljónir.“

Kostnaður verktaka mikill

Verktakarnir hafi margir mikinn metnað og vilja til að hafa lægri verð, en kostnaðurinn við byggingarframkvæmdir sé orðinn gríðarlega mikill.

„Yfirvöld hafa verið að hvetja verktakana til að lækka verðið. Verktakarnir hafa sagt á móti: „Ekkert mál, lækkið þá kostnaðinn okkar við að byggja.“ Verktakarnir eru ekkert með mjög mikinn hagnað. Það er ekkert mikill hagnaður út úr þessu per se.“

„Þannig að, sko, kostnaðurinn hefur náttúrulega aukist alveg gríðarlega og bara kostnaðurinn bara við opinberu gjöldin líka, allt of, allt of hár.“

Bílastæðamálin fyrirstaða

Páll segir að mörgum kaupendum finnist nýbyggingar á þéttingarreitum þar sem lítið er um bílastæði ekki spennandi.

„Þetta bara hentar ekki. Það kannski vill íbúðina, en þetta er fyrirstaða hjá svo mörgum kaupendum. Þú ert kannski með 100 íbúða kjarna, og ert kannski með 40 bílastæði.“

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum ofar í fréttinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×