Viðskipti innlent

Fjögurra milljarða gjaldið gæti hækkað verði ekkert úr á­fram­haldandi undan­þágu

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Heiða Njóla er forstöðumaður hjá Icelandair.
Heiða Njóla er forstöðumaður hjá Icelandair. Samsett

Forstöðumaður hjá Icelandair segir flugfélagið hafa greitt fjóra milljarða í kolefnisgjald fyrir árið 2025. Hún óttast að undanþága Íslands frá reglugerð Evrópusambandsins falli úr gildi í árslok og verði gjöldin þar af leiðandi mun hærri. Staðsetning Íslands skekkir samkeppnisstöðu íslenskra flugfélaga.

„Við erum að horfa á þennan kostnað hækka verulega á næstu árum og við höfum gefið það út að fyrir árið 2025 eru þetta um fjórir milljarðar. Ef regluverkið heldur áfram að þróast í þá átt sem lítur út fyrir, þá er útlit fyrir að þessi kostnaður tvöfaldist árið 2030 og jafnvel þrefaldist árið 2035,“ segir Heiða Njóla Guðbrandsdóttir, forstöðumaður hjá Icelandair, sem ræddi málin í Reykjavík síðdegis.

„Nú er þetta kostnaður sem leggst ofan á hverja flugferð og eykst þá eftir því sem ferðin krefst meira eldsneytis. Það sem við höfum verið að benda á er að Ísland, eða flugrekendur á Íslandi, beri þyngri byrðar í þessu regluverki.“

Árið 2023 réðst Evrópusambandið í aðgerðir til að sporna við mengun sem báru heitið Fit for 55. Meðal aðgerða var að fríar losunarheimildir voru felldar niður og auknar kröfur gerðar um notkun sjálfbærs eldsneytis. Ísland fékk undanþágu til tveggja ára, sem fellur niður í lok þessa árs.

Breytingar í þágu amerískra flugfélaga

Landfræðileg staðsetning Íslands geri það að verkum að íslensk flugfélög þurfi að greiða mun hærra gjald en önnur evrópsk flugfélög. Flugferðir til meginlands Evrópu séu um þrefalt lengri en meðalflugleggur innan álfunnar.

„Viðskiptalíkan Icelandair gengur út á að tengja Norður-Ameríku og Evrópu um Ísland. Á þessum markaði er mikil og hörð samkeppni. Ekki eingöngu er þetta að íslenskur flugrekandi beri þyngri byrðar en aðrir evrópskir flugrekendur heldur mun þetta hafa þau áhrif að kostnaður við að fljúga fyrir evrópska flugrekendur verður mun meiri heldur en í Norður-Ameríku,“ segir Heiða Njóla.

Samkeppnisstaða evrópskra flugrekenda gæti því farið versnandi í þágu amerískra flugrekenda. Hún telur að þrátt fyrir að gjöldin séu í þágu umhverfisverndar muni flugferðum ekki fækka heldur muni geirinn frekar flytjast frá Evrópu.

„Það er þetta sem við erum að benda á, að við séum að keppa við evrópska og ameríska flugrekendur yfir hafið. Þetta skekkir þá samkeppnisumhverfið.“

Útilokar ekki hærri fargjöld

Heiða útilokar ekki að með hækkun gjaldsins, og afnámi undanþágunnar, geti flugfargjöld hækkað. Fjögurra milljarða gjaldið hafi umtalsverð áhrif á rekstur flugfélagsins.

„Ef þessi þróun heldur áfram þá mun þetta auðvitað verða til þess fallið að hafa áhrif á flugfargjöld. En á þessum harða samkeppnismarkaði yfir hafið þá er rýmið til að hækka flugfargjöld auðvitað ekki mikið.“

Flug sé ein af undirstöðum íslensks atvinnulífs og hafa breytingarnar bein áhrif á íslenskan efnahag. Undanfarin ár hafi verðið á losunarheimildum nánast fimmfaldast.

„Við höfum bent stjórnvöldum á þessa þróun. Meðal annars var niðurstaðan sú að þessi séríslenska lausn sem verður til fyrir tveimur árum sem á að hafa mildandi áhrif á þessa skökku samkeppnisstöðu. En hún er að renna út árið 2026 og við höfum bent á það að það er mikilvægt að fá niðurstöðu í framtíðarlausn Íslands af því að landfræðileg lega landsins mun ekki breytast fyrir árslok 2026.“

„Það er gríðarlega brýnt að Ísland þrýsti fast niður í þessum málum og skapi eðlilegt samkeppnisumhverfi fyrir flugrekendur á Íslandi. “






Fleiri fréttir

Sjá meira


×