Erlent

Fjallaljón banaði konu eftir að ráðist var á mann

Samúel Karl Ólason skrifar
Gary Messina, sem þurfti að berjast við þetta fjallaljón í nóvember, telur að sama ljón hafi banað göngukonu á nýársdag.
Gary Messina, sem þurfti að berjast við þetta fjallaljón í nóvember, telur að sama ljón hafi banað göngukonu á nýársdag. AP/Gary Messina

Fjallaljón er talið hafa banað konu í Colorado á nýársdag. Árásir fjallaljóna á menn eru gífurlega sjaldgæfar en maður segist hafa varist árás fjallaljóns á svipuðum slóðum nokkrum dögum áður.

Konan sem dó var á göngu í norðanverðu Colarado-ríki á nýársdag. Hún var ein á ferðinni og var að ganga lítið farna gönguleið þar sem hún dó. Áverkar fundust á líki konunnar sem bentu til þess að fjallaljón hefði banað henni og göngumenn sem komu að líkinu sáu fjallaljón þar.

Þeir grýttu grjóti að ljóninu til að reka það á brott, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Í kjölfarið voru tvö slík dýr á svæðinu skotin en ekki er búið að staðfesta hvort annað þessara dýra eða þau bæði hafi banað konunni. Rannsókn á eftir að leiða það í ljós.

Fjallaljón eru talin mörg á þessu svæði og sjá göngumenn þau reglulega. Árásir eru hins vegar mjög sjaldgæfar. Síðasta banvæna árás fjallaljóns á mann í Colorado var árið 1999 þegar ljón banaði þriggja ára barni. Barnið hvarf en tætt föt þess fundust þremur árum síðar.

Árið 2019 réðst fjallaljón á mann í Colorado en honum tókst að verjast árásinni og banaði dýrinu. sem var ungur og líklega munaðarlaus hvolpur.

Sjá einnig: Fjallaljónið sem hlaupari kyrkti var munaðarlaus hvolpur

Eftir að konan dó í Colorado á dögunum steig maður fram sem sagðist hafa varist árás fjallaljóns á svipuðum slóðum í nóvember. Þá var hann að hlaupa að morgni til þegar hann sá tvö augu í runna. Í samtali við AP segist Gary Messina hafa tekið mynd af ljóninu, rétt áður en dýrið gerði sig líklegt til að ráðast á hann.

Messina segist hafa varist dýrinu með því að kasta símanum í það, garga og að sparka upp ryki. Fjallljónið hafi ítrekað reynt að komast aftan að honum en eftir nokkrar mínútur hafi honum tekist að brjóta grein af tré og barið dýrið með henni.

Við það hafi fjallaljónið hlaupið á brott.

Messina lét vita af dýrinu og voru sett upp skilti þar sem varað var við fjallaljónum. Þau voru þó fjarlægð aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×