Innlent

Fjögur þyrluútköll á einum sólar­hring

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Það var nóg að gera hjá áhöfninni á TF-GRÓ, þyrlu Landhelgisgæslunnar síðastliðinn sólarhring.
Það var nóg að gera hjá áhöfninni á TF-GRÓ, þyrlu Landhelgisgæslunnar síðastliðinn sólarhring. Vísir/Vilhelm

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar sinnti alls fjórum útköllum á sunnudaginn, en það gerist sjaldan að sveitin sé kölluð svo oft til innan sama sólarhringsins. Þyrla sveitarinnar var send á vettvang í kjölfar umferðarslys, til að sækja slasaðan skipverja og í tvígang vegna veikinda.

Landhelgisgæslan greinir frá þessu í færslu á samfélagsmiðlum í dag, en þar segir að það gerist nokkrum sinnum á ári að þyrlusveitin sinni fjórum útköllum sama daginn. Fyrsta útkallið barst á fjórða tímanum, aðfararnótt sunnudags, eftir bílveltu á Svínadal í Dölum. Gró þyrla gæslunnar lenti á Kambsnesi, skammt sunnan við Búðardal, þar sem hún sótti tvo unga menn sem hafði verið ekið þangað til móts við þyrluna eftir slysið. Þeir voru báðir fluttir með þyrlunni á Landspítalann í Fossvogi, en sá þriðji sem var einnig í bílnum hafði verið keyrður til Reykjavíkur með sjúkrabíl.

„Um leið og þyrlan lenti í Reykjavík, laust eftir klukkan fimm um morguninn, hófst undirbúningur fyrir næsta útkall. Skipstjóri íslensks fiskiskips, sem statt var um 75 sjómílur vestur af Garðskaga, hafði óskað eftir aðstoð þyrlusveitarinnar vegna skipverja um borð sem hafði slasast á hendi,“ segir um næsta verkefni í færslu Landhelgisgæslunnar. „Áhöfn þyrlunnar skipti því yfir í sjógalla og tók eldsneyti áður en tekið var á loft að nýju. Sigmaður þyrlunnar fór um borð í skipið og undirbjó manninn fyrir hífingu, sem gekk vel. Flogið var með hann á Reykjavíkurflugvöll þar sem sjúkrabíll beið og flutti á Landspítalann.“

Það var svo síðdegis í gær og í gærkvöld sem þyrlusveitin var kölluð út í tvígang vegna bráðra veikinda á Snæfellsnesi. Fyrra útkallið barst á sjötta tímanum í gær og það síðara laust fyrir miðnætti í gærkvöldi. „Í bæði skiptin flaug þyrlan að Vegamótum þar sem sjúkrabíll beið á planinu austan Vatnaleiðarvegar og var sjúklingunum komið undir læknishendur í Reykjavík.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×