Viðskipti innlent

Þetta var mest skráða ein­staka bíl­tegundin 2025

Atli Ísleifsson skrifar
Einstaklingar leiddu þann mikla vöxt sem var milli ára í nýskráningum nýrra fólksbíla.
Einstaklingar leiddu þann mikla vöxt sem var milli ára í nýskráningum nýrra fólksbíla. Vísir/Vilhelm

Alls voru 14.556 nýir fólksbílar skráðir á nýliðnu ári sem jafngildir 42 prósenta aukningu milli ára. Aukningin var að stórum hluta drifin áfram af nýskráningum einstaklinga en auk þess jukust nýskráningar hjá ökutækjaleigum og öðrum fyrirtækjum milli ára eftir rólegt ár 2024. Kia var mest skráða einstaka bílategundin.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu. Þar segir að framan af ári hafi nýskráningar fólksbíla verið í hefðbundnum takti miðað við meðaltal síðastliðinna ára.

„Á síðustu tveimur mánuðum ársins, nóvember og desember, voru nýskráningar töluvert umfram það sem tíðkast að jafnaði á þeim árstíma. Líkleg skýring kann að felast í viðbrögðum heimila og fyrirtækja við annars vegar breytingum á vörugjaldi af ökutækjum, og hins vegar lækkun rafbílastyrks um áramótin. Má gera ráð fyrir að þessar tvær breytingar hafi leitt til að hluti bílakaupa hafi færst fram í tímann, þannig að viðskiptin eigi sér stað áður en breytingarnar taka gildi. Það gæti aftur leitt til samdráttar í nýskráningum á næsta ári.

Hlutfall rafmagns- og tengiltvinnbíla náði á ný fyrra hármarki eftir bakslag árið 2024. Rafmagn var jafnframt algengasti orkugjafinn meðal nýrra fólksbíla á árinu 2025 með 41% hlutdeild. Þar á eftir komu tvinnbílar (e. hybrid) og síðan tengiltvinnbílar (e. PHEV).

Einstaklingar leiddu þann mikla vöxt sem var milli ára í nýskráningum nýrra fólksbíla. Alls nýskráðu einstaklingar 6.684 nýja fólksbíla sem er um 75% aukning milli ára. Þessi mikla hækkun helgast að miklu leyti af óvenjufáum nýskráningum einstaklinga árið á undan.

Nýskráningum einstaklinga fjölgaði þegar líða tók á árið. Stærstu mánuðir ársins í tilviki einstaklinga reyndust vera nóvember og desember, sem er óvenjulegt miðað við árstíðasveiflur síðustu ára. Líkt og áður hefur verið nefnt er líklegt að sú þróun endurspegli viðbrögð heimilanna við breytingum á vörugjaldi af ökutækjum og rafbílastyrk sem tóku gildi um áramótin.

Sé litið til orkugjafa má sjá að rafmagn var vinsælasti orkugjafinn og voru 2 af hverjum 3 nýjum fólksbílum sem einstaklingar nýskráðu á árinu 2025 rafmagnsbílar. Aðeins árið 2023 var hlutfallið hærra, en það var jafnframt síðasta árið sem VSK-ívilnun var í gildi fyrir rafmagnsbíla, en árið 2024 tók rafbílastyrkur við af því fyrirkomulagi,“ segir í tilkynningunni. 

Kia mest skráður

Ennfremur segir að Kia hafi verið mest skráða einstaka bíltegundin á árinu 2025, með samanlagt 2.004 nýja fólksbíla eða sem nemi 13,8 prósenta hlutdeild. 

„Næst mest skráða bíltegundin á árinu var Tesla með 1.901 nýja fólksbíla eða 13,1% hlutdeild. Þar á eftir var Toyota með 1.737 nýja fólksbíla eða sem nemur 11,9% af hlutdeild.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×