Viðskipti innlent

Skatt­leysis­mörk barna yngri en 16 ára hækka

Lovísa Arnardóttir skrifar
Það eru gerðar nokkrar breytingar á staðgreiðslu einstaklinga um áramótin.
Það eru gerðar nokkrar breytingar á staðgreiðslu einstaklinga um áramótin. Vísir/Vilhelm

Skattleysismörk barna yngri en 16 ára hækka og hjón og sambúðarfólk munu ekki lengur geta samnýtt annað og þriðja skattþrepið. Gerðar eru nokkrar breytingar á staðgreiðslu einstaklinga þessi áramótin. 

Persónuafsláttur og þrepamörk tekjuskatts einstaklinga hækka samkvæmt lögum í upphafi hvers árs sem nemur hækkun á vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði að viðbættri hækkun vegna framleiðnivaxtar. Hækkun vísitölu neysluverðs liggur nú fyrir og nemur hún 4,5 prósentum á tólf mánaða tímabili. Heildarhækkun viðmiðunarfjárhæða verður því 5,5 prósent.

Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að miðað sé við eins prósenta árlega aukningu framleiðni og að það mat sé tekið til endurskoðunar á fimm ára fresti, næst fyrir tekjuárið 2027.

Í tilkynningu kemur fram að tekjuskattsprósentan verði óbreytt frá fyrra ári sem og hámarksútsvar sveitarfélaga. Vegið meðalútsvar reiknast út frá útsvarsprósentu sveitarfélaga á árinu 2026 að teknu tilliti til tekjuskattsstofns hvers sveitarfélags og verður óbreytt á milli ára eða 14,94 prósent.

Þá er greint frá því að á næsta ári falli út heimild hjóna og sambúðaraðila til að samnýta annað og þriðja þrep, í þeim tilvikum þegar annar aðilinn er með tekjuskattsstofn í þriðja þrepi en hinn ekki.

Þá hækka skattleysismörk barna yngri en 16 ára í fyrsta sinn frá árinu 2014, úr 180.000 í 300.000. Tekjur barna umfram 300.000 bera 6 prósenta skatthlutfall (4 prósenta tekjuskatt og 2 prósenta útsvar).

Í eftirfarandi töflum má sjá skattprósentur, skattleysismörk, persónuafslátt og þrepamörk í kr. fyrir árin 2024 og 2025.

Breytingar á tekjuskatti einstaklinga. Stjórnarráðið
Breytingar á tekjuskatti einstaklinga í staðgreiðslu. Stjórnarráðið
Engar breytingar á tryggingagjaldi. Stjórnarráðið





Fleiri fréttir

Sjá meira


×