Skoðun

Er áramótaheitið árið 2026 betri skjávenjur?

Anna Laufey Stefánsdóttir skrifar

Ertu komin með nóg af stafræna áreitinu og langar að finna aðeins meira jafnvægi í skjánotkun á nýju ári? Velkomin í hópinn. 

Nú er nýtt ár gengið í garð og margir komnir í gírinn að setja sér stór og smá markmið fyrir árið fram undan. Tiltektin er byrjuð heima, búið að kaupa kort í ræktina, fullur ísskápur af grænkáli. En hvað með skjánotkunina? Sífellt fleiri eru farin að finna að skjánotkunin er farin að hafa áhrif á ýmsa þætti í lífinu – svefninn, athyglina og tengslin við fólkið sem okkur þykir vænst um. 

Verður 2026 árið þar sem við öll förum í stafrænt átak? Kannski. 

En hvar er skynsamlegt að byrja? Við ætlum nú varla að henda snjallsímanum út um gluggann og slökkva á routernum 1. janúar… eða hvað? 

Sem betur fer þarf þess ekki. Hér eru einföld og raunhæf skref sem geta hjálpað þér að taka aðeins til í stafræna lífinu og skapa meira jafnvægi og vellíðan. 

1. Gerðu svefnherbergið skjálaust 

Taktu alla síma og hleðslutæki út úr svefnherberginu. Það er löngu vitað að snjallsímar hafa slæm áhrif á svefninn okkar – bæði á gæði hans og lengd. Fáðu fjölskylduna með í lið og gerið þetta að sameiginlegu verkefni. 

Notið þið símann sem vekjaraklukku? Þá er bara að skella sér í næstu heimilistækjaverslun og kaupa klassíska vekjaraklukku. Þær kosta minna en Subway. Ef þið viljið ganga skrefinu lengra má líka íhuga að taka tölvur og sjónvörp út úr svefnherbergjum. 

2. Skiptu skrollinu út fyrir lestur 

En hvernig næ ég þá að sofna? 

Kannski er þetta góður tími til að bæta við öðru markmiði: að lesa meira. Settu það sem reglu að lesa alltaf smá fyrir svefninn. Lestur er besta leiðin til að snúa við blaðinu og þjálfa okkur í að halda athygli. Það er erfitt fyrst - en eins og hver annar vöðvi þá styrkist hann með æfingunni. Lestur er frábær fyrir svefninn, þar sem hann hægir á huganum og gerir okkur bæði slök og syfjuð. 

Það þarf ekki nema 1–2 blaðsíður að kvöldi til að byrja með. Smátt og smátt kemst þú loksins í gegnum bókina sem hefur beðið á náttborðinu. 

3. Vertu með hugann til staðar á viðburðum 

Reynum að sleppa símanum á viðburðum – hvort sem það eru tónleikar, flugeldasýningar, brúðkaup, fermingar eða einfalt partý með vinunum. Njótum tónlistarinnar, horfum saman á flugeldana, tölum saman og verum til staðar.. Í stórum veislum hafa gestgjafar oft lagt mikla vinnu, tíma og peninga í undirbúninginn. Að vera virkilega til staðar er ein besta leiðin til að sýna þeim ást og umhyggju. 

4. Gerðu þetta með öðrum 

Allt er auðveldara þegar við erum fleiri. Fáðu vini eða fjölskyldu með þér í lið og ákveðið saman að skilja símann eftir þegar þið hittist – í úlpuvasanum, bílnum eða jafnvel heima. 

Sumir fara skrefinu lengra og kaupa símageymslu fyrir andyri eða stofu. Þannig verðum við raunverulega saman þegar við erum saman. Hægt er að kaupa Símaklefann hjá Barnaheill og styrkja gott málefni í leiðinni. 

5. Notaðu einn skjá í einu

Hafðu það að markmiði að vera ekki í mörgum skjám eða nota mörg öpp samtímis. Ekki horfa á sjónvarpið og skrolla á sama tíma. Ekki hlusta á hlaðvarp á meðan þú spilar tölvuleik. 

Gefðu því sem þú ert að gera fulla athygli og leyfðu þér að njóta. Horfðu á góðar bíómyndir, spilaðu skemmtilegan tölvuleik eða hlustaðu á áhugavert hlaðvarp. Og ekki hlusta á hlaðvörp eða horfa á þætti á tvöföldum hraða. Við erum ekkert að flýta okkur. 

6. Skjátími sem samvera, ekki einangrun 

Það er ekki allur skjátími slæmur. Þegar við notum skjái saman getur hann orðið að góðri samveru. Safnaðu vinum eða fjölskyldu saman í þáttamaraþon, haltu bíókvöld eða tölvuleikjakvöld þar sem við upplifum skemmtunina saman. 

Sameiginleg upplifun skapar tengsl. Hún færir okkur nær hvort öðru og vinnur gegn einmanaleika. Í stað þess að vera hvert í sínu horni, föst í sitthvorum algorithmanum, erum við saman að njóta sömu sögunnar, hlátursins og augnablikanna. 

7. Prófaðu einfaldari lausnir

 Finnst þér erfitt að standast freistinguna og hefur jafnvel hugleitt að vera alveg án snjallsíma? Það eru til allskonar lausnir. Hægt er að fá sér tímabundið takkasíma til að brjóta notkunarmynstrið. Ef það hljómar hræðilega eru einnig til snjallsímar eins og Balance Phone - sem er með aðgengi að öllum nytsamlegum öppum en lokar fyrir öll ávanabindandi öpp eins og samfélagsmiðla og leiki. 

Það þarf hvorki að taka öll þessi skref né innleiða þau öll í einu. Veldu það sem hentar þér best – og prófaðu í rólegheitunum. Best er að gera þetta með öðrum, hvort sem það er fjölskyldan eða vinahópurinn. 

Stafræn velferð snýst ekki um að gera allt fullkomlega – heldur að finna jafnvægi í stafrænni notkun. 

Við eigum að nota tæknina. Tæknin á ekki að nota okkur. 

Gangi þér vel í þinni vegferð að finna stafrænt jafnvægi og gleðilegt nýtt ár.

Höfundur er tölvunarfræðingur hjá Stafrænni velferð.




Skoðun

Skoðun

Hin­segin

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Sjá meira


×