Innlent

Er­lendir ferða­menn tals­vert slasaðir eftir á­reksturinn

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Frá vettvangi á tíunda tímanum í gærkvöldi. Þá var vinnu á vettvangi lokið og búið að setja gult lögreglulímband á bílflökin.
Frá vettvangi á tíunda tímanum í gærkvöldi. Þá var vinnu á vettvangi lokið og búið að setja gult lögreglulímband á bílflökin. Vísir

Fjórir erlendir ferðamenn voru fluttir með þyrlum Landhelgisgæslunnar á slysadeild í Reykjavík eftir árekstur tveggja bifreiða á Suðurlandi í gær. Tildrög slyssins eru til rannsóknar.

Það var um kvöldmatarleytið í gær sem tilkynning barst um bílslys við Fagurhólsmýri á Suðurlandi að sögn Jóns Gunnars Þórhallssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurlandi. Bærinn er um 25 kílómetra austur af þjóðgarðinum Skaftafelli.

„Þarna varð árekstur tveggja bifreiða og í þessum bifreiðum voru fjórir aðilar sem slösuðust. Þetta var um kvöldmatarleytið í gærkvöldi og þetta er Öræfunum. Það voru fluttir þessir aðilar allir úr bílunum með þyrlum á Landspítalann til aðhlynningar,“ segir Jón Gunnar.

Aðspurður segir Jón Gunnar að erlendir ferðamenn hafi verið í báðum bílunum. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni voru tvær þyrlur gæslunnar sendar af stað til að sækja hina slösuðu. Þrír voru fluttir með annarri þyrlunni frá vettvangi og einn með hinni þyrlunni frá Kirkjubæjarklaustri þangað sem hann var fluttur með sjúkrabíl til móts við þyrluna. Vegna slæms skyggnis var þyrlunum ekki lent við Borgarspítalann heldur á Reykjavíkurflugvelli þaðan sem fólkið var flutt með sjúkrabíl á Landspítalann. 

Jón Gunnar kveðst ekki hafa nákvæmar upplýsingar um hversu alvarlega fólkið er slasað.

„En þetta voru talsverðir áverkar sem krafðist innlagnar hjá þeim,“ segir Jón Gunnar.

Tildrög slyssins eru nú til rannsóknar og stendur sú vinna yfir. 

„Það var lokað fyrir umferð á meðan á vettvangsvinnunni stóð en það var ekki lengi þannig að umferð komst fljótt á aftur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×