Neytendur

Húðflúrari fór frá hálf­kláruðum fugli á hálsi

Atli Ísleifsson skrifar
Alls mætti viðskiptavinurinn í fimm skipti til húðflúrarans og í klukkutíma í senn. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint.
Alls mætti viðskiptavinurinn í fimm skipti til húðflúrarans og í klukkutíma í senn. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. Getty

Húðflúrara hefur verið gert að endurgreiða viðskiptavini sínum 280 þúsund krónur eftir að hann fór frá hálfkláruðu verki og sagðist hættur störfum. Viðskiptavinurinn var búinn að greiða fyrir verkið en hafði einungis fengið dökkan bakgrunn flúraðan á allan handlegginn og útlínur fugls á hálsi en bæði voru verkin ófullgerð.

Þetta kemur fram í úrskurði kærunefndar vöru- og þjónustukaupa. Þar eru málsatvik rakin en viðskiptavinurinn leitaði til húðflúrarans til að láta flúra á bak sitt, háls og handlegg. Viðskiptavinurinn greiddi húðflúraranum alls 380 þúsund krónur í fjórum millifærslum á um eins árs tímabili – frá nóvember 2023 til október 2024.

Við meðferð málsins sagði viðskiptavinurinn að fyrsta millifærslan – 100 þúsund krónur – hafi verið vegna húðflúrs á bakinu en þær tvær næstu – 80 þúsund og 100 þúsund – vegna húðflúra á hálsi og handlegg. Síðasta millifærslan, 100 þúsund krónur, hafi svo verið framkvæmd að ósk húðflúrarans þar sem hann sagðist þurfa að kaupa nýja spjaldtölvu til að geta lokið við húðflúrin.

Mætti fimm sinnum

Alls mætti viðskiptavinurinn í fimm skipti til húðflúrarans og í klukkutíma í senn. Á einhverjum tímapunkti varð svo ómögulegt að fá tíma og fékk viðskiptavinurinn þá þær upplýsingar að húðflúrarinn væri hættur störfum.

„Að sögn [viðskiptavinarins] séu húðflúr á hálsi og handlegg hans hálfkláruð og hafi [húðflúrarinn] aldrei byrjað að húðflúra bak [viðskiptavinarins],“ segir í úrskurðinum. Þarna hafi viðskiptavinurinn óskað eftir fullri endurgreiðslu, auk 80 þúsund króna vegna myndavélar sem viðskiptavinurinn hafi selt húðflúraranum. Húðflúrarinn varð hins vegar ekki við þeim beiðnum þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir.

Tvær ljósmyndir

Við meðferð málsins brást húðflúrarinn ekkert við og skilaði hvorki inn andsvörum né gögnum. Viðskiptavinurinn lagði hins vegar fram tvær ljósmyndir sem nefndarmenn telja sýna að húðflúrarinn hafi horfið frá hálfloknu verki.

„Á fyrri ljósmyndinni má sjá að [húðflúrarinn] hefur aðeins flúrað dökkan bakgrunn á allan handlegg [viðskiptavinarins] án þess að hefja flúrun hans að öðru leyti. Á síðari ljósmyndinni verður ráðið að [húðflúrarinn] hafi flúrað útlínur fugls á hálsi [viðskiptavinarins] sóknaraðila,“ segir í nefndinni. Bæði séu húðflúrin ófullgerð.

Nefndin telur að af framlögðum gögnum verði talið að viðskiptavinurinn eigi rétt á endurgreiðslu á kaupverði þjónustunnar, 280 þúsund krónur. Nefndin vísaði hins vegar frá kröfu viðskiptavinarins um endurgreiðslu vegna myndavélarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×