Bíó og sjónvarp

Wire-stjarna látin langt fyrir aldur fram

Kjartan Kjartansson skrifar
James Ransone við frumsýningu á Sundance-kvikmyndahátíðinni árið 2011.
James Ransone við frumsýningu á Sundance-kvikmyndahátíðinni árið 2011. AP/Danny Moloshok

James Ransone, bandarískur leikari sem er hvað helst þekktur fyrir hlutverk sitt í „The Wire“, bestu sjónvarpsþáttum allra tíma, lést á föstudag, aðeins 46 ára gamall. Réttarlæknir í Los Angeles segir að Ransone hafi svipt sig lífi.

Líf Ransone var ekki dans á rósum. Hann glímdi við áfengis- og heróínfíkn sem hann rakti til kynferðisofbeldis sem hann varð fyrir af hendi leiðbeinanda í grunnskóla.

Í viðtali árið 2016 lýsti hann því ennfremur að leiklistin léti honum ekki alltaf líða vel þar sem hann þyrfti oft að túlka óviðkunnalegar persónur, að því er kemur fram í andlátsfrétt The Guardian.

Af þeim meiði var hlutverk Chester „Ziggy“ Sobotka í annarri þáttaröð „The Wire“ sem Ransone var einna þekktastur fyrir. Sobotka var veiklyndur og umkunarverður hafnarverkamaður sem sneri sér að glæpum sem Ransone túlkaði af mikilli list.

Síðar lék Ransone í HBO-þáttunum „Generation Kill“ sem David Simon, höfundur The Wire, gerði. Eitt síðasta hlutverk Ransone var í hryllingsþáttunum „It: annar kafli“ sem eru innblásnir af sögu Stephens King.

Mótleikari Ransone í The Wire, Wendell Pierce, harmaði að hafa ekki getað hjálpað honum í erfileikunum í færslu á samfélagsmiðlinum X.

„Mér þykir leitt að hafa ekki getið verið til staðar fyrir þig, bróðir. Hvíldu í friði,“ skrifaði Pierce sem lék rannsóknarlögreglumanninn „Bunk“ Moreland.


Tengdar fréttir

The Wire og Sopranos-leikari látinn

Bandaríski leikarinn Charley Scalies sem þekktur er fyrir hlutverk sín í þáttaröðunum The Wire og The Sopranos, er látinn, 84 ára að aldri. Hann lést fyrsta dag maímánaðar, en hann hafði glímt við Alzheimer-sjúkdóminn um nokkurt skeið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.