Innlent

Langtímaleigan 23 þúsund krónum dýrari á ári

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Gjaldið nemur 23 þúsund krónum á ári á leigutaka.
Gjaldið nemur 23 þúsund krónum á ári á leigutaka. Höldur

Bílaleiga Akureyrar, Höldur, hefur tilkynnt viðskiptavinum sínum að frá og með áramótum muni fyrirtækið innheimta aukalegar 1550 krónur af viðskiptavinum sem eru með bíla í langtímaleigu hjá fyrirtækinu.

Morgunblaðið greinir frá því að fyrirtækið beri við nýjum lögum um kílómetragjald sem nái til allra bifreiða óháð orkugjafa. Fram að þessu hefur gjaldið aðeins verið lagt á raf- og tvinnbíla. Það er metið út frá heildarþyngd ökutækis og raunakstri samkvæmt mæli en ökutæki undir 3500 kílóum greiða 6.95 krónur fyrir hvern ekinn kílómetra.

Höldur hafi metið það sem svo að gjaldið nemi 1550 krónum á mánuði á leigutaka eða rúmum 23 þúsund krónum á ári að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins kemur það fram í tilkynningu frá Höldi að innleiðing gjaldsins, sem tekur gildi um áramót, hafi í för með sér verulegan kostnað fyrir bílaleigur vegna utanumhalds, gagnameðhöndlunar, innheimtu og skilagreiðslna.

Höldur biðji viðskiptavini sína jafnframt um að skrá kílómetrastöðu bifreiða sinna á heimasíðu fyrirtækisins eigi síður en 28. desember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×