Innlent

Ís­land tekur höndum saman með Norður­löndum og Eystra­salts­ríkjum

Samúel Karl Ólason skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra. Vísir/Lýður Valberg

Ísland mun taka þátt í að stofna sameiginlega netöryggismiðstöð með öðrum Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjum. Þau ríki sem koma að miðstöðinni munu koma á fót sameiginlegum greiningarbúnaði og svæðisbundinni gagnadeilingu til að nýta rauntímaupplýsingar og verjast netárásum.

Auk Íslands koma Noregur, Danmörk, Finnland, Eistland, Lettland og Litáen að stofnun miðstöðvarinnar sem kallast Nordic Baltic Cyber Consortium eða NBCC.

Samkvæmt yfirlýsingu frá utanríkisráðuneytinu er verkefnið samfjármagnað af Evrópusambandinu en Samfélagaöryggisstofnun Danmerkur fer með umsjón verkefnisins, með aðkomu CERT-IS.

„Netárásir þekkja engin landamæri og eru hluti af þeirri öryggisáskorun sem samfélög standa frammi fyrir í dag. Þær geta haft alvarleg áhrif á þjóðaröryggi og mikilvæga innviði sem við reiðum okkur á í okkar daglega lífi. Á þeim víðsjárverðu tímum sem við lifum er því mikilvægt sem aldrei fyrr að samstíga ríki efli samstarf sitt enn frekar til að sporna gegn þessari vá sem sífellt færist í aukana,“ er haft eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra, í yfirlýsingunni.

„Með þessu samstarfi við okkar helstu samstarfsríki byggjum við upp traust, deilum þekkingu og eflum viðbragð til að vernda samfélög okkar og tryggja sameiginlegt öryggi þeirra til framtíðar.“

Auk þess að vera samstarfsvettvangur ríkja á NBCC einnig að vera vettvangur fyrir þróun nýrrar tækni og stuðla þannig að auknu samstarfi einkaaðila og vísindasamfélagsins. Þá á miðstöðin einnig að styðja við stjórnvöld og tryggja samstarf varðandi ástandsvitund og samhæfingu netöryggismála.

Í yfirlýsingunni segir að NBCC muni starfa sem svæðisbundin netöryggismiðstöð þvert á landamæri. Það þýði að Atlantshafsbandalagið verði einnig virkur þátttakandi í víðtæku samstarfi innan ESB um netöryggi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×