Umræðan

Pólitísk stríðs­yfir­lýsing

Bill Emmott skrifar

Orð ársins hjá The Economist, sem birt var 5. desember, gat átt vart betur við skjalið sem barst frá Hvíta húsinu sama dag. Orðið er „slop“ – fornt hugtak sem hefur fengið nýja merkingu sem lýsing á innihaldslausum eða fölskum texta sem gervigreind skapar. Ég hefði aldrei trúað að jafn alvarlegt skjal og ný þjóðaröryggisstefna (NSS) Bandaríkjanna gæti fallið undir þá skilgreiningu. En í raun er það kurteis lýsing á texta sem á jafnvel meira skilið annað fjögurra stafa orð sem einnig byrjar á S.

Skjalið lesist eins og „slop“. Það samanstendur af blygðunarlausum ósannindum, fáránlegum fullyrðingum og stöðugum mótsögnum. Voru Bandaríkin og heimurinn í lok kjörtímabils Joe Biden í alvöru „á barmi hörmunga“? Hefur átt sér stað dramatískur viðsnúningur? Getur ríki sem fangelsar þúsundir án dóms og laga, hagræðir kjördæmamörkum í pólitískum tilgangi og þar sem forsetinn beitir hótunum um lögsóknir til að þagga niður óháða fjölmiðla í alvöru talið sig vera vígi „raunverulegs lýðræðis“ og „tjáningarfrelsis“?

Versta mótsögnin lýtur hins vegar að Rússlandi. NSS heldur því fram að Evrópuríki innan NATO hafi nægjanlegt afl til að mæta Rússlandi og að innrás Kremlverja í Úkraínu hafi orðið til þess að „margir Evrópubúar líti á Rússland sem tilvistarógn“. En hvers vegna ætti það að leiða til þess að Evrópubúar sætti sig við tilraunir Bandaríkastjórnar til að „endurheimta strategískan stöðugleika“ með Rússavænni friðaráætlun sem aðstoðarmenn Trump hafa haldið á lofti? Það var Rússland sem raskaði þessu öryggisjafnvægi í Evrópu – og því þarf að beita Rússlandi raunverulegum þrýstingi ef takast á að endurreisa slíkan stöðugleika í álfunni.

Getur ríki sem fangelsar þúsundir án dóms og laga, hagræðir kjördæmamörkum í pólitískum tilgangi og þar sem forsetinn beitir hótunum um lögsóknir til að þagga niður óháða fjölmiðla í alvöru talið sig vera vígi „raunverulegs lýðræðis“ og „tjáningarfrelsis“?

Í raun ætti viðeigandi viðbragð við þessari nýju þjóðaröryggisstefnu þó ekki að vera aðeins að gera lítið úr henni fyrir þvæluna sem hún sannarlega er. Fyrir bandamenn Bandaríkjanna í áratugi, einkum í Evrópu, er hún mun alvarlegri. Skjalið er í raun yfirlýsing um árás á evrópskt lýðræði og evrópska lífshætti.

Vilja styðja við uppgang „þjóðernisflokka“ í Evrópu

Hér er um að ræða stjórn sem lætur konungsríkin við Persaflóa vita að hún muni hætta að „predika“ um pólitískt stjórnarfar þeirra og sem um leið sýnir að hún hefur ekki minnsta áhuga á að bregðast við stríðsglæpum Rússlands, einræðistilburðum eða kerfisbundinni kúgun til að þagga niður í öllum gagnrýnisröddum. Í kosningabaráttunni í fyrra var Elbridge Colby, vararáðherra í bandaríska varnarmálaráðuneytinu og talinn einn helsti höfundur NSS, oft að ávíta Evrópubúa í skrifum sínum á X (áður Twitter) fyrir að tjá sig yfirleitt um bandarísk stjórnmál. Samt fullyrðir NSS að forgangsverkefni Bandaríkjanna sé að færa Evrópu af „núverandi braut“ og styðja svonefnda „þjóðernisflokka“. Með öðrum orðum ystu hægri flokkanna, sumir beinlínis með náin tengsl við Moskvu, í Frakklandi, Bretlandi, Þýskalandi, Ítalíu og víðar.

Samkvæmt NSS er efnahagsleg hnignun Evrópu aðeins smávægileg miðað við „alvarlegri og raunverulegri hættu á siðmenningarlegri útrýmingu“. Í alvöru? Flestir Evrópubúar telja margfalt líklegra að bandarísk siðmenning verði sú sem hverfur, ekki síst vegna Donalds Trump sem hefur á þeim ellefu mánuðum frá því hann að tók aftur við embætti forseta reynt að grafa undan grunnstoðum stjórnarskrárinnar, þar á meðal valdheimildum Bandaríkjaþings og takmörkuninni um að forseti megi aðeins sitja tvö kjörtímabil. Trump hefur sóst eftir pólitískri stjórn yfir háskólum og menningarstofnunum og virt að vettugi allar lagalegar hömlur um að auðgast persónulega á stjórnvaldsathöfnum meðan hann gegnir embætti.

Hér er um að ræða stjórn sem lætur konungsríkin við Persaflóa vita að hún muni hætta að „predika“ um pólitískt stjórnarfar þeirra og sem um leið sýnir að hún hefur ekki minnsta áhuga á að bregðast við stríðsglæpum Rússlands.

Evrópa getur sannarlega haft það að markmiði að hjálpa Bandaríkjunum við að „leiðrétta sína braut“, rétt eins og NSS lýsir vilja Washington til að gera við Evrópu. En getur nokkur trúað því að Trump vilji gera Evrópu „aftur stórfenglega“ á sama tíma og Bandaríkin hafa á árinu hækkað tolla á fjölda evrópskra vara um 15 prósent, þrýst á fyrirtæki og ríkisstjórnir í Evrópu að beina milljarða dala fjárfestingum vestur um haf og sækist eftir náinni samvinnu við Rússland – þjóð sem hefur ráðist inn í nágrannaríki sitt, myrt hundruð þúsunda og framið skemmdarverk í Evrópu?

Ein tiltekin fullyrðing afhjúpar þessa stríðsyfirlýsingu sem lygi. NSS heldur því fram að „innan fáeinna áratuga“ gætu „sum NATO-ríki orðið með meirihluta íbúa sem eru ekki með evrópskan uppruna“. Hvar á að byrja? Í fyrsta lagi eru það Evrópubúar sjálfir sem skilgreina hvað „evrópskt“ er, rétt eins og Bandaríkjamenn skilgreina eigið þjóðerni. Í öðru lagi er Tyrkland nú þegar að meirihluta ekki „evrópskt“ og er stolt af því. Í þriðja lagi mun ekkert ESB-ríki nokkru sinni verða með meirihluta íbúa sem eru ekki ríkisborgarar þess og það sama á við um Bretland. Það sem NSS á í raun við er að sum NATO-ríki gætu orðið með meirihluta íbúa sem eru ekki hvítir á hörund. Gyðingar munu án efa taka eftir því að sumir harðlínufylgjendur Trump flokka þá ekki einu sinni sem „hvíta“.

Fjandsamleg stefna í garð Evrópu

Þetta er eins skýr og lítt dulbúinn rasismi og hugsast getur. Hann minnir á hugmyndafræði nasismans að því leyti að hann leitast við að skilgreina þjóðerni með þeim hætti að útiloka ákveðna hópa sem taldir eru óáreiðanlegir eða með „ranga“ hollustu. Að slíkar hugmyndir birtist í landi innflytjenda er með ólíkindum.

Evrópubúar geta vissulega leitt hjá sér þessa illgjörnu greiningu og svokölluðu ráðleggingar NSS. En þeir verða jafnframt að gera sér grein fyrir því að hún er ekki vel meint, heldur beinlínis fjandsamleg. Hún sýnir skýran ásetning til að beygja evrópsk stjórnvöld undir bandarískan vilja og kemur samhliða áformum um að svíkja Úkraínu og raunverulega öryggishagsmuni Evrópu með samningi við Rússland sem, miðað við það sem vitað er, myndi auðga fáeina einstaklinga og fyrirtæki í nánu vinfengi við Trump, veikja Úkraínu og skila Evrópu eftir í alvarlegri hættu til framtíðar.

Evrópubúar geta vissulega leitt hjá sér þessa illgjörnu greiningu og svokölluðu ráðleggingar NSS. En þeir verða jafnframt að gera sér grein fyrir því að hún er ekki vel meint, heldur beinlínis fjandsamleg.

The Economist lýkur umfjöllun sinni um orð ársins með hugtakinu „sloptimismi“ – þeirri bjartsýni að „slop“ geti að lokum orðið til góðs fyrir trausta og áreiðanlega fjölmiðla. „Sloptimíska“ útgáfan fyrir þjóðaröryggisstefnu Trump væri að vona að firringin sem birtist í lestri á skjalinu, mótstaða margra Repúblikana, minnkandi fylgi forsetans og gagnrýni úr eigin flokki vegna ólöglegra drápa á meintum fíkniefnasmyglurum í Karíbahafi, verði þess valdandi að stefnan nái ekki flugi áður en hún nær að festa rætur.

Það væri sannarlega gott að vona það, en óvarlegt að treysta á það. Rétt eins og það væri gott að vona að Fidesz-flokkur Viktor Orbans, einn af þeim sem Trump kallar „þjóðræknu flokkana“, verði loks hrakinn frá völdum í kosningunum í apríl, ef marka má kannanir. Við getum aðeins krosslagt fingur.


Lausleg þýðing á grein sem birtist eftir Bill Emmott laugardaginn 6. desember á vefsíðunni Wealth of Nations á Substack sem blaðamaðurinn Simon Nixon heldur úti.

Höfundur var ritstjóri vikuritsins The Economist á árunum 1993 til 2006 og er núna formaður stjórnar International Institute of Strategic Studies (IISS). Hann er meðal annars höfundur bókanna Deterrence, Diplomacy and the Risk of Conflict over Taiwan og The Fate of the West: The Battle to Save the World's Most Successful Political Idea.


Tengdar fréttir

Trump býður upp á upp­skrift að stríði og spillingu – ekki friði

28 punkta „friðaráætlunin“ sem Bandaríkin og Rússland vilja þröngva upp á Úkraínu og Evrópu er rangnefni. Þetta er engin friðaráætlun. Hún er þess í stað upplegg sem veikir Úkraínu, skapar sundrung milli Bandaríkjanna og Evrópu og undirbýr jarðveginn fyrir stærra stríð í framtíðinni.






×