Handbolti

Skýrsla Ágústs: Ekki lengur reynslulausar

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Stelpurnar okkar stóðu sig með prýði en margt situr eftir sem hefði mátt betur fara.
Stelpurnar okkar stóðu sig með prýði en margt situr eftir sem hefði mátt betur fara. Federico Gambarini/picture alliance via Getty Images

Stelpurnar okkar kláruðu HM með glæsibrag og geta gengið sáttar frá mótinu en nú verða ekki fleiri frípassar gefnir.

Lítið vægi var sett á úrslitin á þessu móti, en góður sigur vannst gegn Færeyjum í kvöld. 

Öllu frekar var jákvæðnin við völd á þessu móti og bæði þjálfari og leikmenn liðsins töluðu um mótið sem uppbyggingarverkefni fyrir framtíðina.

Sem er gott og vel, meirihluti liðsins var að spila á HM í fyrsta sinn og margar hverjar voru með litla landsliðsreynslu fyrir.

Nú hafa þær hins vegar allar fengið að spreyta sig og flestar spiluðu heilmikið á mótinu. Þjálfarinn var duglegur að rúlla liðinu og leyfa varamönnum að koma inn á. Yfirleitt spiluðu allar eitthvað í öllum leikjum.

Þetta unga og reynslulitla lið er því ekki lengur svo reynslulaust, og er alls ekkert mikið yngra heldur en mörg lið á mótinu sem hafa verið að gera góða hluti. 

Allar eru þær sammála um að síðustu þrjár vikur hafi þétt hópinn vel saman og stefnan er sett á að stíga framfaraskref. Hætta að vera ungt og reynslaust lið og verða alvöru lið í alþjóða handboltanum, því gæðin eru alveg til staðar.

Næsta verkefni verður að komast inn á EM á næsta ári og stelpurnar okkar munu þurfa að hafa sig allar við því þær töpuðu fyrstu tveimur leikjunum í undankeppninni. 

Brekkan er því nokkuð brött en það verður vonandi gaman að sjá stelpurnar okkar standa hnarreistar eftir að hafa sótt stórmótareynslu til Þýskalands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×