Handbolti

Fannst serbneski línu­maðurinn leiðin­leg og al­gjör tuddi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elísa Elíasdóttir hefur jafnað sig á axlarmeiðslum og kom inn í íslenska hópinn fyrir leik kvöldsins.
Elísa Elíasdóttir hefur jafnað sig á axlarmeiðslum og kom inn í íslenska hópinn fyrir leik kvöldsins. sýn sport

Elísa Elíasdóttir kom inn í hóp íslenska kvennalandsliðsins í handbolta fyrir leikinn gegn Serbíu á HM. Hann tapaðist naumlega, 27-26. Elísu fannst línumaðurinn sterki, Dragana Cvijic, afar leiðinlegur mótherji.

„Það er ótrúlega, ótrúlega, ótrúlega sárt,“ sagði Elísa í samtali við Ágúst Orra Arnarson, aðspurð hvernig væri að heyra sigursöngva serbnesku leikmannanna óma eftir leikinn.

Klippa: Elísu fannst Serbinn algjör tuddi

„Ég get eiginlega ekki lýst því. Ég er mjög pirruð. En ég er ógeðslega ánægð með árangurinn okkar í seinni hálfleiknum og stolt af okkur. Við vorum svo nálægt því.“

Elísa barðist við hina stóru og öflugu Cvijic í leiknum í kvöld.

„Það var ógeðslega leiðinlegt að eiga við hana. Hún er grófur leikmaður, notar olnbogann, er að fiska og fagnar í andlitið á manni. Maður verður trítilóður á henni. En það var bara gaman að fá nýja áskorun,“ sagði Elísa.

„Þetta er bara reynsla í henni. Hún hefur örugglega fimmtán ár á mig þannig ég verð vonandi orðin svona mikill tuddi þegar ég verð kominn á þennan aldur.“

Íslendingar lentu mest sjö mörkum undir, 24-17, en með Hafdísi Renötudóttur í miklum ham í markinu komu íslensku stelpurnar til baka og voru hársbreidd frá því að ná í stig.

„Ég get varla komið því í orð hvað ég er stolt af liðinu. Fyrsta sem ég hugsaði var: Þetta er bara rétt að byrja. Ímyndið ykkur hvað við getum orðið góðar eftir nokkur ár ef við höldum í þennan hóp,“ sagði Elísa.

„Þessi hópur er búinn að æfa lengi saman og við erum að ná þessum árangri á móti gífurlega sterku liði. Ég er spennt fyrir komandi tímum og full af stolti.“

Elísa hefur glímt við axlarmeiðsli en segir þau heyra sögunni til.

„Ég hef aldrei verið betri,“ sagði Eyjakonan ákveðin að endingu.

Viðtalið við Elísu má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

„Fannst stelpurnar frábærar í seinni hálfleik“

Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handbolta, var bæði svekktur og stoltur eftir eins marks tapið fyrir Serbíu, 27-26, í C-riðli heimsmeistaramótsins í kvöld. Ísland fékk tækifæri til að jafna metin í lokasókn leiksins.

„Reyndi að halda þessu áfram eins lengi og ég gat“

„Úff, við fundum lyktina af sigrinum, þetta var mjög svekkjandi“ sagði landsliðsmarkmaðurinn Hafdís Renötudóttir, sem sýndi hetjulega frammistöðu í grátlegu 27-26 tapi Íslands gegn Serbíu á HM.

„Mig langar mjög mikið að gráta“

Þórey Anna Ásgeirsdóttir var sár og svekkt eftir eins marks tap Íslands fyrir Serbíu, 27-26, á HM í handbolta í kvöld. Hún fékk tækifæri til að jafna í lokasókn Íslands en markvörður Serbíu varði skot hennar úr hægra horninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×