Handbolti

Nýtti pirringin á réttan hátt

Valur Páll Eiríksson skrifar
Katrín Tinna var öflug í kvöld.
Katrín Tinna var öflug í kvöld. Vísir/Ágúst

Katrín Tinna Jensdóttir var að öðrum ólöstuðum besti leikmaður íslenska landsliðsins í sjö marka tapi fyrir Þýskalandi í fyrsta leik liðsins á HM í Stuttgart. Hún naut sín vel og segir tapið hafa verið helst til stórt.

„Mér fannst frammistaðan bara flott. Ég verð að segja það eins og er. Þetta var ótrúlega gaman. Ég er svekkt að hafa misst þetta niður í sjö, mér fannst við eiga meira inni en það. Ég er stolt af liðinu og fannst við gera þetta vel,“ segir Katrín Tinna í samtali við Ágúst Orra Arnarson í Stuttgart eftir leik.

Klippa: Svekkt að hafa misst þetta niður

Katrín Tinna var í miðju varnar Íslands og lék á línu í sókn. Hún átti sex löglegar stöðvanir, fleiri en restin af íslenska liðinu til samans, og var einnig næst markahæst með fjögur mörk.

Hún þurfti að glíma við stóra og sterka þýska skrokka í kvöld.

„Þetta var ekkert grín þarna. Þetta krafðist mikillar orku og það var alveg mikill pirringur en það er bara að nýta hann á réttan hátt,“ segir Katrín létt.

Hraðaupphlaup Þjóðverja eftir sóknarmistök Íslendinga reyndust munurinn á liðunum. Hver einasti tapaði bolti reyndist dýrkeyptur gegn snöggum þýskum leikmönnum.

„Við hefðum getað hlaupið betur til baka. Mér fannst þær skora frekar mikið úr hraðaupphlaupum. Það er klárlega eitthvað sem við þurfum að skoða, hvernig við erum að hlaupa til baka. En það var margt gott og margt sem við getum tekið út úr þessu,“ segir Katrín sem naut sín þó vel fyrir fullri þýskri höll.

„Þetta var sturlað. Auðvitað hefði maður viljað hafa fleiri Íslendinga í stúkunni en að spila fyrir framan svona marga í þessari stemningu er alveg klikkað,“ segir Katrín Tinna.

Viðtalið má sjá í spilaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×