Erlent

Trump og Selenskí eiga eftir að ræða stóru málin

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Vólódímír Selenskí við Hvíta húsið í október.
Donald Trump og Vólódímír Selenskí við Hvíta húsið í október. EPA/SHAWN THEW

Þótt Úkraínumenn hafi samþykkt marga af liðum nýrrar friðaráætlunar, eftir viðræður við Bandaríkjamenn og breytingar á upprunalegu tillögunum, eru enn stór deilumál útistandandi. Vonast er til þess að Vóldódímír Selenskí og Donald Trump, forsetar Úkraínu og Bandaríkjanna, geti leyst þann hnút og stendur til að þeir hittist sem fyrst, mögulega um næstu helgi.

Rustem Umerov, forseti þjóðaröryggisráðs Úkraínu, sagði í dag að hann vonaðist til að forsetarnir gætu fundað sem fyrst. Hvíta húsið hefur þó ekki sagt til um hvort það standi til eða sé í boði.

Bandarískir og rússneskir erindrekar hafa fundað um nýju tillögurnar í Abú Dabí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í dag.

Ólíklegt þykir að Rússar verði tilbúnir til að samþykkja friðaráætlunina nýju, þó að lítið sé í raun vitað um innihald hennar enn, en mögulegt er að þeir muni reyna að komast hjá því að hafna henni með afgerandi hætti, til að forðast það að reita Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, til reiði.

Lindsey Graham, öldungadeildarþingmaður og bandamaður Trumps, gaf í gær til kynna að hann hefði ekki mikla trú á að yfirstandandi viðræður myndu skila árangri. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, myndi ekki semja um frið á meðan hann teldi sig með stjórn á aðstæðum.

Þá sagði Graham að ef Pútín héldi áfram að hafna vopnahlésbeiðnum og friði, yrði að herða refsiaðgerðir gegn Rússum til muna og Vesturlönd yrðu að grípa til frekari aðgerða.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, lagði þær línur í morgun þegar hann ræddi við blaðamenn og sakaði hann þá Evrópumenn um að standa í vegi friðar.

Ekki liggur fyrir hverjir skipa rússnesku sendinefndina í Abú Dabí en þeirri bandarísku er stýrt af Dan Driscoll, ráðherra bandaríska hersins.

Landsvæði og öryggistryggingar til umræðu

Þeir liðir upprunalegu friðaráætlunarinnar sem féllu hvað verst í kramið í Kænugarði sneru að landsvæðum og öryggistryggingum. Áætlunin þótti loðin þegar kæmi að því að tryggja fullveldi Úkraínu til framtíðar.

Í stuttu máli sagt fól upprunalega áætlunin í sér að Úkraínumenn gæfu eftir umfangsmikið og víggirt svæði í Dónetsk-héraði og að í staðinn myndu Rússar halda yfirráðasvæðum sínum í Lúhansk, Kerson og Spórisjía, auk Krímskaga.

Þeir ættu þó að hörfa frá einhverjum hernumdum svæðum eins og í Súmí og Karkív en þeir liðir voru nokkuð óljósir varðandi hvenær og hvernig það ætti að gerast.

Sjá einnig: Hafna kröfu Rússa um undanhald frá Dónetsk

Ráðamenn í Úkraínu hafa ítrekað sagt að þeir muni aldrei viðurkenna formlega eignarrétt Rússa á hernumdum svæðum í Úkraínu. Úkraínumenn hefðu einnig aldrei viljað hörfa frá þeim svæðum sem þeir stjórna í Dónetsk.

Í frétt Washington Post segir að á þessu ári hafi Rússar lagt undir sig minna en eitt prósent af úkraínsku landi. Þetta svæði hafi verið hernumið á kostnað þess að fleiri en tvö hundruð þúsund hermenn hafi fallið eða særst í átökunum.

Þegar kemur að öryggistryggingum, sem snúast um að tryggja að Rússar geti ekki gert aðra innrás í Úkraínu eftir kannski nokkur ár, voru Úkraínumenn einnig ekki sáttir.

Þeim átti að vera meinuð innganga í NATO og að takmarka stærð hers síns við sex hundruð þúsund menn.

Þá áttu Rússar að binda í lög sín að þeir myndu ekki ráðast inn í fleiri nágrannaríki sín.

Hvernig þetta á að líta út í nýju friðaráætluninni liggur ekki fyrir enn, samkvæmt frétt Reuters, og er vonast til þess að Selenskí og Trump geti komist að samkomulagi um það.

Hvort Trump og Selenskí geti komist að samkomulagi um tillögur þeirra til Rússa er einungis einn hluti jöfnunnar. Síðan þarf að semja við Rússa um þær tillögur. Eins og staðan er í dag er fátt sem bendir til þess að Rússar séu tilbúnir að samþykkja áætlun sem Úkraínumenn geti sætt sig við, og öfugt.


Tengdar fréttir

Gerðu loftárásir á báða bóga

Rússar og Úkraínumenn gerður loftárásir á báða bóga í nótt þar sem mannfall varð úr röðum almennra borgara. Úkraínumenn segja Rússa hafa skotið flaugum og flogið drónum á höfuðborgina Kænugarð, þar sem að minnsta kosti tvær íbúðablokkir urðu fyrir sprengjum.

Skrifa ný drög að friðaráætlun

Bandarískir og úkraínskir erindrekar hafa sett saman ný drög að friðaráætlun, samkvæmt yfirlýsingum þarlendra stjórnvalda. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir að viðræður Úkraínumanna og Bandaríkjamanna í dag hafi skilað árangri. Aftur á móti væri nokkuð í land.

Þingmenn segja eitt en Rubio annað: Margsaga um uppruna og tilgang friðartillagnanna

Bandarískir þingmenn sögðust í gærkvöldi hafa rætt við Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og að hann hefði sagt þeim að friðartillögur sem Bandaríkjamenn væru að reyna að fá Úkraínumenn til að samþykkja væru „óskalisti“ Vladimírs Pútín, forseta Rússlands. Þingmennirnir höfðu eftir Rubio að tillögurnar mörkuðu ekki raunverulega afstöðu Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×