Skoðun

Tryggðu þér bíl fyrir ára­mótin!

Vilhjálmur Árnason skrifar

„Tryggðu þér bíl fyrir hækkun vörugjalda,“ segir í auglýsingu frá Mitsubishi á Íslandi og „tryggðu þér nýjan bíl fyrir áramót,“ segir í auglýsingu frá Brimborg. Þetta eru aðeins tvö dæmi af fjölmörgum auglýsingum bílaumboða undanfarnar vikur á öllum helstu miðlum og það er engin tilviljun.

Ástæðan er einföld: ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hyggst hækka vörugjöld (lesist sem tollar) á bíla um milljónir króna. Því miður er það dapurlegur veruleiki á lokametrum ársins að bílamarkaðurinn sjái sig knúinn til að hvetja fólk til að tryggja sér nauðsynjavöru, eins og bílar svo sannarlega eru, fyrir áramót vegna þess að skattahækkunin verður svo gríðarleg.

Sama ríkisstjórn og sagðist ekki ætla að hækka skatta á „venjulegt“ og „vinnandi“ fólk ákveður nú að gera einmitt það. Nema hún telji bílaeigendur til óvenjulegra auðmanna eða iðjuleysingja.

Tökum lítið en skýrt dæmi um Kia Sportage, plug in hybrid, sem bar áður 5% vörugjald. Um áramótin hækkar það í rúmlega 27%. Hvað þýðir þessi breyting í krónum talið?

– Skattahækkunin ein og sér hækkar verðið á bílnum um tæplega 1,2 milljónir króna.

– Þar á ofan leggst hærri virðisaukaskattur, sem hækkar um tæplega 287 þúsund krónur vegna hærri vörugjalda.

Samanlagt nemur skattahækkun ríkisstjórnarinnar á þessum eina bíl tæplega 1,5 milljónum króna. Í landi þar sem bíleign er álíka mikil nauðsyn og að eiga góða úlpu er augljóst að þessi aðgerð bitnar beint á fjölskyldum landsins og það með gífurlegum þunga.

Vinstristjórnir á Íslandi lenda jafnan í sama vítahringnum. Þær þenja út ríkisbáknið, reyna að fjármagna útgjaldaaukninguna með því að skattleggja „breiðu bökin“, og þegar það dugar ekki - sem gerist alltaf - þá eru það fjölskyldurnar í landinu sem fá reikninginn. Nú gerist það aftur og þetta er bara eitt dæmi um það.

Ég vil minna ykkur á hvað forystumenn ríkisstjórnarinnar sögðu fyrir kosningarnar fyrir ári síðan:

„Ég vil vera alveg skýr, ég vil vera alveg skýr með það að Samfylkingin ætlar ekki að hækka skatta á vinnandi fólk í landinu,“ sagði Kristrún Frostadóttir.

„Við í Viðreisn erum alveg skýr á því að við ætlum ekki að auka skatta á venjulegt fólk, á almenning í landinu,“ sagði Þorgerður Katrín fyrir kosningar.

Mikið hefði nú verið gott hefðu þær staðið við loforðin sín. Við sjálfstæðismenn munum allavega leggja til fjármagnaðar tillögur til að afstýra þessum áformum og skilja meiri pening eftir í vösum landsmanna.

Höfundur er ritari Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Jóla­kötturinn, ert það þú?

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×