Sport

Tia-Clair Toomey í sömu sporum og Anníe Mist

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tia-Clair Toomey-Orr með eiginmanninum Shane og dótturinni Willow.
Tia-Clair Toomey-Orr með eiginmanninum Shane og dótturinni Willow. @shaneorr01's profile picture tiaclair1's profile picture tiaclair1

Besta CrossFit-kona sögunnar mun ekki reyna við níunda heimsmeistaratitilinn sinn á næsta ári.

Ástralinn og áttfaldi heimsmeistarinn Tia-Clair Toomey-Orr tilkynnti á samfélagsmiðlum sínum að hún sé ófrísk.

Þetta verður hennar annað barn en hún sagði frá barnalukku með eiginmanni sínum Shane Orr og dóttur sinni Willow.

Toomey-Orr varð heimsmeistari í CrossFit sex ár í röð en tók sér svo frí frá keppni árið 2023 til að eignast Willow. Hún sneri svo aftur og var krýnd hraustasta kona heims tvisvar í viðbót, 2024 og 2025.

Á síðasta keppnistímabili velti meistarinn því fyrir sér að hætta í keppni og tilkynnti síðan að þátttaka hennar í Torian Pro árið 2025 yrði hennar síðasta.

Nú er endanlega ljóst að hún opnar fyrir aðra að heimsmeistaratitlinum á árinu 2026.

Toomey-Orr varð fyrsta konan til að vinna þrjá heimsmeistaratitla í röð og bætti síðan met Matt Frasier með því að verða fyrsti CrossFit-íþróttamaðurinn til að vinna sex heimsmeistaratitla í röð.

Hún varð síðan fyrsta konan til að vinna heimsmeistaratitilinn sem móðir árið 2024.

Þrjár sigursælustu konur í sögu heimsleikanna í CrossFit hafa því eignast barn á þessu ári eða eru að fara eignast barn. Katrín Tanja Davíðsdóttir (2 heimsmeistaratitlar) eignaðist dótturina Emberly Heba Laich í október, Anníe Mist Þórisdóttir (2 heimsmeistaratitlar) á von á sínu þriðja barni í febrúar og svo á Toomey-Orr von á sér næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×