Lífið

Óða boðflennan fangelsuð

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Johnson Wen hljóp upp að tónlistarkonunni Ariönu Grande og tók utan um hana. Fyrir það hlaut hann níu daga dóm.
Johnson Wen hljóp upp að tónlistarkonunni Ariönu Grande og tók utan um hana. Fyrir það hlaut hann níu daga dóm. Getty

Maður sem óð upp að tónlistarkonunni Ariönu Grande á kvikmyndafrumsýningu í Singapúr og tók utan um hana hefur verið dæmdur í níu daga fangelsi fyrir að vera með ólæti á almannafæri. Hann hefur ítrekað framkvæmt sambærilega gjörninga en aldrei áður hlotið fangelsisdóm.

Johnson Wen, 26 ára Ástrali, hefur gert það að eins konar hobbíi að hlaupa upp á svið á tónleikum, íþróttaviðburðum eða frumsýningum og vera þar til trafala. 

Nýjasti gjörningur Wen átti sér stað þegar söngleikjamyndin Wicked: For Good var frumsýnd 13. nóvember í Singapúr. Hann stökk þá yfir girðingu, hljóp upp að annarri aðalleikkonu myndarinanar Ariönu Grande, tók utan um hana og hoppaði við hlið hennar. 

Cynthia Erivo, mótleikkona Grande, ýtti Wen í burtu áður en öryggisverðir handsömuðu hann. Hann reyndi síðan að klifra aftur yfir grindverkið en var þá rekinn á brott. Seinna sama kvöld var Wen handtekinn við hið fjölfarna Temple-stræti og hefur verið í haldi síðan.

Þoldi loks afleiðingar gjörða sinna

Wen fór fyrir dómara um helgina og krafðist saksóknari viku fangelsis fyrir verknaðinn. Nefndi hann að Wen væri „rað-boðflenna“ og auglýsti gjörninga sína á netinu til að afla sér vinsælda.

Þegar dómarinn spurði Wen hvort hann hefði eitthvað að segja dómnum til mildunar, sagðist hann ekki mundu gera neitt slíkt aftur.

„Er þetta bara í orði en ekki á borði eða er það raunveruleg ætlun þín?“ ku dómarinn hafa spurt.

„Já, ég ætla að hætta,“ á Wen þá að hafa sagt.

Dómarinn dæmdi Wen í níu daga fangelsi og benti á að Wen hefði aldrei áður þurft að takast á við afleiðingar gjörða sinna. 

„Þú virðist vera athyglissjúkur, hugsar bara um sjálfan þig og ekki um öryggi annarra,“ sagði dómarinn um gjörðir Wen. Svo dæmdi hann Wen í níu daga fangelsi fyrir ólæti á almannafæri. Ekki liggur fyrir hvort Wen var einnig gert að greiða sekt.


Tengdar fréttir

Æstur aðdáandi óð í Grande

Ástralskur aðdáandi óð upp að söng- og leikkonunni Ariönu Grande og tók utan um hana í Singapore í gær. Cynthia Erivo, mótleikkona Grande, kom henni til varnar og ýtti manninum frá áður en hann var fjarlægður af vettvangi. Maðurinn gerir markvisst út á það að ryðjast upp á svið til tónlistarmanna eða inn á íþróttaviðburði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.