Körfubolti

Bæði Florída-liðin unnu á flautukörfu í nótt og svona fóru þau að því

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrew Wiggins var kátur eftir að hafa tryggt Miami Heat sigurinn í nótt.
Andrew Wiggins var kátur eftir að hafa tryggt Miami Heat sigurinn í nótt.

Það var dramatík í NBA-deildinni í körfubolta í nótt þegar Florída-liðin Orlando Magic og Miami Heat unnu bæði leiki sína á síðustu sekúndunum.

Þetta er í fyrsta sinn í allri NBA-sögunni þar sem tvö lið úr sama fylki vinna leiki á flautukörfu á sama kvöldi.

Andrew Wiggins tryggði Miami Heat 140-138 sigur á Cleveland Cavaliers með alley-oop troðslu. Aðstoðarþjálfari Miami Heat, Chris Quinn, teiknaði upp þetta leikkerfi fyrir um fjórum árum sem aðalþjálfarinn Erik Spoelstra hafði beðið eftir að nota.

Spoelstra notaði leikkerfið á úrslitastundu í nótt og lét Quinn stjórna hópnum í síðasta leikhléinu þegar staðan var jöfn 138-138 og aðeins fjórir tíundu úr sekúndu eftir af framlengingunni.

Quinn teiknaði upp leikkerfi þar sem Norman Powell myndi skapa truflun, Davion Mitchell myndi setja hindrun, Jaime Jaquez Jr. myndi bíða í horninu, Nikola Jovic myndi kasta háum bolta inn í teiginn fyrir framan körfuna og Andrew Wiggins myndi, ef allt gengi að óskum, troða boltanum í körfuna. Allt gekk eins og það átti að gera og Miami fagnaði sigri. Það má sjá sigurtroðsluna hér fyrir ofan.

Þetta var ekki eina flautukarfan í Flórída á mánudagskvöldið, því klukkutíma fyrr setti Desmond Bane niður þriggja stiga skot sem tryggði Orlando Magic 115-112 sigur á Portland Trail Blazers.  Það má sjá sigurkörfuna hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×