Handbolti

Á­kvörðun þjálfarans að taka ekki á­tján leik­menn: „Hefur ekkert með fjárhagsstöðuna að gera“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Arnar Pétursson ákvað að taka aðeins sextán leikmenn á HM í stað átján.
Arnar Pétursson ákvað að taka aðeins sextán leikmenn á HM í stað átján. vísir

„Þetta er algjörlega okkar ákvörðun, þjálfarateymisins, að gera þetta svona. Það hefur ekkert með fjárhagsstöðuna að gera“ segir landsliðsþjálfarinn Arnar Pétursson um þá ákvörðun að velja aðeins sextán leikmenn í HM-hópinn, í stað átján leikmanna eins og á síðasta stórmóti.

„Við vorum að velta því fyrir okkur hvort við ættum að láta það duga, eins og við gerum, eða fara með átján leikmenn.

En þetta er tiltölulega stutt ferðalag [til Þýskalands] þannig að ef eitthvað kemur upp á þá erum við með fimm leikmenn sem eru tilbúnir að koma með mjög skömmum fyrirvara.

Okkur fannst betra að þessir leikmenn séu hér heima og á alvöru æfingum með sínum félagsliðum, en koma þá klárir í verkefnið ef þess þarf“ útskýrði Arnar einnig.

Slæm fjárhagsstaða HSÍ hefur verið mikil til umræðu undanfarið, skera þurfti niður í starfsteymi karlalandsliðsins í æfingaleikjum gegn Þýskalandi á dögunum og framkvæmdastjóri sambandsins sagði nýlega að mögulega þyrfti að skera niður í starfsteymi landsliðanna á næstu stórmótum.

Arnar segir það ekki verða gert á heimsmeistaramótinu, hann fær að fara með allt sitt starfsteymi og tók þá ákvörðun sjálfur, eins og hann segir hér að ofan, um að taka ekki átján leikmenn með á mótið.

„Við erum að fara með allt okkar starfsfólk“ sagði Arnar.

Nánar verður rætt við landsliðsþjálfarann um hópinn sem hann valdi í Sportpakka Sýnar að loknum kvöldfréttum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×