Skoðun

Vís­vitandi verið að skaða at­vinnu­lífið?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Haustið 2009 sagði Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðingur og fyrrverandi stjórnarmaður í Evrópusamtökunum sem börðust fyrir inngöngu í Evrópusambandið, á fundi í Norræna húsinu að forsenda þess að mögulegt væri að koma Íslandi inn í sambandið væri að staða efnahagsmála þjóðarinnar yrði enn verra en hún varð í kjölfar bankahrunsins. „Þá gætu Íslendingar í augnabliks geðveiki átt það til að segja já en á venjulegum degi munu þeir segja nei.“

Mér varð hugsað til þessara orða Eiríks vagna vaxandi umræðna í samfélaginu um framgöngu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmála þjóðarinnar sem hefur frekar verið til þess fallin að auka á verðbólgu en draga úr henni og draga úr þrótti atvinnulífsins með ákvörðunum eða áformum um stórauknar álögur. Vangaveltur um það hvort ríkisstjórnin sé vísvitandi í pólitískum tilgangi að valda atvinnulífinu skaða eru skiljanlegar í ljósi þess hvernig hún hefur kosið að halda á málum.

Vafalaust hugsa ýmsir að hér sé aðeins um samsæriskenningu sé að ræða og þannig hugsaði ég sjálfur til að byrja með. Ég vil enn ekki trúa því að þetta sé raunin en á sama tíma hrannast vísbendingarnar upp sem erfitt er að hunza. Allar helztu atvinnugreinar þjóðarinnar hafa verið undir í þeim efnum. Sjávarútvegurinn, landbúnaðurinn, stóriðjan og ferðaþjónustan sem vill svo til að eru allar á könnu Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra Viðreisnar.

Hafa verður í huga í þess sambandi að það er ekki Viðreisn pólitískt í hag að staða efnahagsmála batni hér á landi. Þvert á móti. Helzta stefnumál flokksins, sem öll önnur stefna hans tekur mið af og sem hann var hreinlega stofnaður í kringum, er innganga í Evrópurópusambandið. Lagist efnahagsmálin er viðbúið að áhugi á því að ganga í sambandið minnki enn frekar. Versni það, eins og Eiríkur Bergmann benti á, er það á hinn bóginn líklegt til þess að auka stuðning við það.

Formaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, skaut föstum skotum á forystu Samfylkingarinnar í færslu á Facebook fyrir helgi fyrir að taka ekki þátt í að tala fyrir inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru. Pawel Bartoszek, þingmaður flokksins, ritaði grein á Vísi í vikunni þar sem hann viðurkenndi að staða efnahagsmála sambandsins væri ekki góð en vildi ranglega meina að hún væri verri hér. Betri efnahagsstaða landsins hentar ekki Viðreisn.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál)




Skoðun

Sjá meira


×