Erlent

Á­kærðir fyrir hryðju­verk gegn ísraelska sendi­ráðinu í Kaup­manna­höfn

Kjartan Kjartansson skrifar
Tæknimenn dönsku lögreglunnar á vettvangi sprenginga við ísraelska sendiráðið í Hellerup í október árið 2024.
Tæknimenn dönsku lögreglunnar á vettvangi sprenginga við ísraelska sendiráðið í Hellerup í október árið 2024. Vísir/EPA

Tveir ungir sænskir ríkisborgarar sem eru taldir hafa kastað handsprengjum að ísraelska sendiráðinu í Kaupmannahöfn í fyrra voru ákærðir fyrir hryðjuverk og tilraun til hryðjuverka. Málið er það fyrsta sinnar tegundar í Danmörku sem varðar hryðjuverk sem var fullframið.

Handsprengjurnar sprungu við íbúðarhús nærri sendiráði Ísraels í Hellerup, úthverfi Kaupmannahafnar aðfararnótt 2. október í fyrra. Engan sakaði en þær ollu skemmdum á nærliggjandi byggingum.

Mennirnir sem eru ákærðir eru átján og tuttugu ára gamlir, að því er segir í frétt danska ríkisútvarpsins. Þeir eru sagði hafa flutt fimm handsprengjur með sér í grennd sendiráðsins. Fyrir þeim hafi vakað að kasta þeim í sendiráðið og að það teljist hryðjuverk, að sögn Lise-Lotte Nilas, saksóknara í Kaupmannahöfn.

Þeir eru taldir hafa lagt á ráðin um verknaðinn í sameiningu og í samráði við einn eða fleiri óþekkta vitorðsmenn.

Daginn fyrir sprengingarnar var byssuskotum hleypt af við ísraelska sendiráðið í Stokkhólmi. Síðar í sama mánuði var skotum enn hleypt af við hergagnaverksmiðju dótturfélags ísraelsks fyrirtækis í Gautaborg. Um þetta leyti var ár liðið frá því að hernaður Ísraelshers á Gasaströndinni hófst.

Réttarhöld eiga að hefjast í næsta mánuði

Til viðbótar við hryðjuverk og tilraun til þeirra eru tvímenningarnir ákærðir fyrir að stefna lífi öryggisvarða við sendiráðið í hættu og tilraun til manndráps.

Sakborningarnir voru handteknir nokkrum klukkustundum eftir sprengingarnar á aðallestarstöðinni í Kaupmannahöfn við mikinn lögregluviðbúnað.

Málið gegn Svíunum tveimur verður tekið fyrir í Kaupmannahöfn í næsta mánuði. Saksóknarar krefjast þess að þeir verði dæmdir til fangelsisvistar og að þeim verði vísað úr landi og bannað að koma til Danmerkur varanlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×