Viðskipti innlent

Úrvinnslusjóður svarar Sorpu

Lovísa Arnardóttir skrifar
Flokkun drykkjarferna var dýr og verður sorphirðugjald hækkað í kjölfarið.
Flokkun drykkjarferna var dýr og verður sorphirðugjald hækkað í kjölfarið. Vísir/Vilhelm

Úrvinnslusjóður segir í tilkynningu að gjaldskrá þeirra sé opinber og opinber öllum samningsaðilum. Það hafi því alveg átt að vera Sorpu ljóst að eitt gjald væri fyrir pappa- og pappírsumbúðir og að ekki væri gert ráð fyrir sérmeðhöndlun á drykkjarfernum. Sorpu hefði átt að vera kunnugt um það.

Tilkynning Úrvinnslusjóðs er í tilefni af því að Sorpa greindi frá því í dag að þau myndu þurfa að hækka sorphirðugjald á heimili á höfuðborgarsvæðinu vegna synjunar Úrvinnslusjóðs á að greiða Sorpu afturvirkt kostnað við sérmeðhöndlun drykkjarferna sem Sorpa ákvað að hefja á árinu 2023.

Í tilkynningu Úrvinnslusjóðs er áréttað að Sorpa hafi tilkynnt þann 7. júní 2023 um breyttar vinnsluaðferðir á drykkjarfernum og að það myndi fela í sér 75 milljóna króna kostnaðarauka. Sjóðurinn segir það alfarið á ábyrgð Sorpu.

„Í tilkynningu Sorpu frá í dag er látið að því liggja að í upphafi hafi verið áformað að Úrvinnslusjóður greiddi þennan kostnaðarauka, en að því hafi svo verið hafnað. Hið rétta er að engin beiðni barst Úrvinnslusjóði á þessum tímapunkti um að breyta gjaldskrá vegna pappa- og pappírsumbúða. Sorpa fór fyrst fram á umræddar greiðslur í febrúar 2024, og þá afturvirkt vegna ársins 2023. Stjórn Úrvinnslusjóðs tók erindið til umfjöllunar og hafnaði því, þar sem ekki lá fyrir greining á umhverfislegum ávinningi vinnslunnar. Í kjölfarið samdi Úrvinnslusjóður við Hagfræðistofnun HÍ um að gera kostnaðar- og ábatagreiningu á sérvinnslu drykkjarferna, með hliðsjón af umhverfislegum ávinningi. Niðurstaða þeirrar greiningar lá fyrir í september 2025 og svo virðist sem Sorpa hafi nú ákveðið á grundvelli hennar að falla frá sérvinnslu fernanna,“ segir í tilkynningunni.

Sorpa tilkynnti í dag að þau myndu hætta að flokka drykkjarfernur frá pappírsúrgangi. Vísað var til þess að fyrirkomulagið skili litlum árangri, sé verra fyrir loftslagið og sé afar dýrt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×