Erlent

Tveggja barna for­eldrar verða undan­þegnir tekju­skatti

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Afnám tekjuskatts fyrir foreldra var eitt af kosningamálum Karol Nawrocki í vor.
Afnám tekjuskatts fyrir foreldra var eitt af kosningamálum Karol Nawrocki í vor. EPA

Karol Nawrocki, forseti Póllands, hefur skrifað undir lög sem gera tveggja barna foreldra undir ákveðnu frítekjumarki undanþegna tekjuskatti. Markmiðið er að stemma stigu við fæðingartíðni í sögulegri lægð og örva pólska hagkerfið.

Karol Nawrocki, sem var kjörinn forseti Póllands í júní, lagði frumvarpið fram í ágúst síðastliðnum og voru lögin samþykkt á fimmtudaginn í síðustu viku.

Með lögunum hækkar frítekjumark Pólverja úr 30.000 pólskum zloty á ári (um einni milljón íslenskra að núvirði), í 140.000 zloty (4,7 milljónir íslenskra) á ári, að því gefnu að foreldrar eigi tvö börn eða fleiri.

Lágmarkslaun í Póllandi eru um 55.992 zloty á ári, sem samsvara tæplega 1,9 milljónum íslenskra króna.

Frítekjumark pólskra hjóna verður með breytingunum 280.000 zloty á ári, en skattaafslátturinn verður í gildi þar til barnið nær 18 ára aldri, eða 25 ára aldurs ef barnið er tekjulaust og í skóla.

Samkvæmt útreikningum stjórnvalda mun pólsk fjölskylda með meðaltekjur græða um þúsund zloty á mánuði eftir breytingarnar, sem samsvara um 33 þúsund íslenskum krónum að núvirði.

Fyrsta tekjuskattsþrepið í Póllandi er tólf prósent, en það gildir um árstekjur allt að 120.000 zloty. Fyrir tekjur hærri en 120.000 zloty greiða Pólverjar 32 prósenta skatt.

„Tekjuskattsafslátturinn fyrir foreldra er ekki bara kosningaloforð mitt, heldur er það skylda mín að tryggja áframhaldandi tilvist Póllands og sjálfstæði pólsku þjóðarinnar,“ sagði Nawrocki um málið.

Samkvæmt umfjöllun Euronews voru um 76 prósent Pólverja ánægðir með áformin, og aðeins 16 prósent lýstu mikilli andstöðu, í skoðanakönnun sem framkvæmd var 11. september.

Fæðingatíðni pólskra kvenna mældist 1,099 börn á hverja konu árið 2024 og er ein sú lægsta í heiminum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×