Fótbolti

„Enn hungur hjá leik­mönnum og stuðnings­mönnum“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Sölvi Geir Ottesen hrósaði bæði leikmönnum sínum og stuðningsmönnum Víkings. 
Sölvi Geir Ottesen hrósaði bæði leikmönnum sínum og stuðningsmönnum Víkings.  Vísir/Pawel

Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings, var ánægður með að sjá hversu mikið leikmenn hans lögðu í það verkefni að landa sigrinum gegn Breiðabliki í Bestu-deild karla í fótbolta þrátt fyrir að Íslandsmeistaratitillinn sé nú þegar í höfn. 

„Ég er fyrst og fremsta bara virkilega ánægður með sigurinn. Það er gríðarlega kærkomið að ná loksins að landa sigi gegn Blikum í deildinni á Kópavogsvelli. Það gerðist síðast árið 2017 en þá var Viktor Bjarki á varamannabekknum. Það er gott að ná að grafa þessa grýlu,“ sagði Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings, að leik loknum.

„Við gáfumst ekkert upp þrátt fyrir að lenda undir og snérum þessu okkur í vil. Við héldum áfram að sækja á þá og uppskárum tvö mörk fyrir vinnusemi okkar og sóknarþunga. Það var mikill barningur og kannski lítið um fínt spil. Þetta var jafn leikur sem hefði getað endað með sigri á báða bóga, sem betur höfðum við vinninginn,“ sagði Sölvi Geir enn fremur.

„Mig langar að nefna það líka og þakka fyrir þann frábæra stuðning sem við fengum í þessum leik. Margir myndu halda að leikmenn og stuðningsmenn væru saddir eftir að hafa tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn en það var ekki uppi á teningnum í þessum leik,“ sagði hann um Víkinga innan vallar og utan.

„Stuðningsmenn sungu og trölluðu allan leikinn að það gaf okkur kraft inn á völlinn. Við höfum fengið frábæran stuðning í allt sumar og það er greinilega enn nóg bensín á þeim sem mæta á leikina og standa við bakið á okkur,“ sagði þjálfarinn sáttur. 

„Við erum svo með leikmannhóp sem mætir á hverja æfingu með það mindset að bæta sig með hverju verkefni. Þegar þú nærð að þróa það þá smitar það út í leikina. Nú förum við í síðasta verkefni tímabilsins og klárum það með stæl,“ sagði Sölvi Geir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×