Fótbolti

Ronaldo þénar 150 milljónum meira en Messi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þrátt fyrir að vera orðinn fertugur er Cristiano Ronaldo enn í fullu fjöri.
Þrátt fyrir að vera orðinn fertugur er Cristiano Ronaldo enn í fullu fjöri. epa/RODRIGO ANTUNES

Cristiano Ronaldo trónir á toppi lista bandaríska viðskiptatímaritsins Forbes yfir ríkustu fótboltamenn heims.

Talið er að Ronaldo, sem leikur með Al Nassr í Sádi-Arabíu, muni þéna 280 milljónir Bandaríkjadala á þessu tímabili, fyrir skatta. Þar af eru 230 milljónir í laun og fimmtíu milljónir sem hann þénar utan vallar.

Næstur á lista Forbes kemur Lionel Messi, sem leikur með Inter Miami í Bandaríkjunum, en áætlað er að Argentínumaðurinn þéni 130 milljónir Bandaríkjadala á tímabilinu.

Samkvæmt útreikningum Forbes munu tíu efstu fótboltamennirnir á listanum þéna samtals 945 milljónir Bandaríkjadala á næsta tímabili.

Neymar, sem var í 3. sæti listans á síðasta ári, dettur alveg út af honum. Brassinn yfirgaf Al Hilal í Sádi-Arabíu í janúar og gekk í raðir uppeldisfélagsins Santos í heimalandinu.

Karim Benzema, leikmaður Al Ittihad í Sádi-Arabíu, er núna í 3. sæti listans með áætlaðar tekjur upp á 104 milljónir Bandaríkjadala. Real Madrid-maðurinn Kylian Mbappé er í 4. sætinu (95 milljónir) og Erling Haaland hjá Manchester City í því fimmta (áttatíu milljónir).

Spænska ungstirnið Lamine Yamal er nýr á listanum en þessi átján ára strákur er í 10. sæti hans með áætlaðar tekjur upp á 43 milljónir á þessu tímabili.

Fjórir af efstu tíu á lista Forbes leika í spænsku úrvalsdeildinni (Mbappé, Vinícius Júnior, Jude Bellingham og Yamal) og þrír spila í Sádi-Arabíu (Ronaldo, Benzema og Sadio Mané). Haaland og Mohamed Salah eru fulltrúar ensku úrvalsdeildarinnar á listanum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×