Skoðun

Eigindlegar rann­sóknir og um­ræðan um jafn­rétti

Stefan C. Hardonk skrifar

Þann 6. október sl. skrifaði Andri Steinn Hilmarsson á Vísir.is skoðanapistil undir fyrirsögn ‚Engin eftirspurn eftir Viðreisnar- og Samfylkingarmódelinu‘ (https://www.visir.is/g/20252785174d/engin-eftirspurn-eftir-vidreisnar-og-samfylkingarmodelinu) þar sem höfundur tekur afstöðu gagnvart breytingum á starfsemi leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Vísað er svo í pistilinn í grein sem birtist 16. október sl. (https://www.visir.is/g/20252788497d/leikskolagjold-einstaedra-foreldra-i-reykjavik-gaetu-allt-ad-threfaldast).

Það sem vakti athygli mína var þó ekki umræðuefnið sjálft heldur sá hluti röksemdafærslunnar sem snýr að skýrslu Vörðu – rannsóknarstofu vinnumarkaðarins (https://www.rannvinn.is/_files/ugd/61b738_f36265faf5d84940afb99ccb41741c40.pdf). Höfundur pistilsins færir þau rök að ekki eigi að taka mark á rannsókn Vörðu þar sem ekki er um nein vísindaleg rannsókn að ræða.

Röksemdafærslan virðist að mestu leyti byggja á þeirri staðreynd að rannsóknin er ekki megindleg. Vísar höfundur meðal annars í eiginleika viðtalsaðferðar:

„Rannsóknin byggir á viðtölum við tuttugu foreldra, 20 manns í heilu bæjarfélagi, þar af fimmtán mæður og fimm feður. Engin tölfræðileg mæling, ekkert samanburðarúrtak, engin greining á tekjuhópum eða baklandi.“

Í eigindlegri aðferðafræði vísindarannsókna, sem þessi rannsókn er dæmi um, er markmiðið aldrei að komast að alhæfanlegri þekkingu til dæmis um hversu algengt ákveðið viðhorf er. Með því að ræða við ‚lítinn‘ fjölda fjólks er leitast við að ná djúpum skilningi á því fyrirbæri sem rannsóknin snýr að og ekki síst draga fram sjónarmið ólíkra einstaklinga á málefni. Það er andstæðan við fyrirfram mótaðar spurningar og svör sem eru hluti af megindlegum rannsóknum sem hafa það að markmiði að skilja breiddina frekar en dýptina. Við höfum öll fyllt út spurningalista og upplifað að við viljum breyta spurningunum eða svarmöguleikunum svo þeir passi betur við okkar viðhorf eða reynslu. Eigindleg viðtöl bjóða upp á að kanna betur reynslu fólks í samhengi.

Góð skýrsla um eigindlega rannsókn gerir skýra grein fyrir forsendum ransóknarinnar þ.m.t. á hvaða fræðilegum grunni hún byggir og hvers konar framlag hún vill gera. Þegar markmið er að skilja reynslu fólks af fyrirbærum svo sem fyrirkomulagi leikskóla verður rannsakandi helsta rannsóknartólið. Um það hefur mikið verið skrifað og getur fólk kynnt sér það t.d. hjá Taylor, Bogdan og DeVault (2016). Ríkar kröfur um gagnsæi eru gerðar til eigindlegra rannsókna svo tryggja megi trúverðugleika þeirra og því er merkilegt að höfundur pistilsins lýsi skýrslu Vörðu á eftirfarandi hátt:

„Þetta er túlkun rannsakanda á frásögnum sem valdar voru inn í ákveðinn ramma. Enda er það viðurkennt í rannsókninni.“

Ekki er um viðurkenningu að ræða, heldur gera höfundar skýrslunnar í kafla 2 grein fyrir markmiðum og aðferðarfræði þ.m.t. hver keypti og vann skýrsluna. Þetta er hefðbundinn þáttur í skýrslum um eigindlegar rannsóknir sem stuðlar að trúverðugleika.

Í þessu samhengi er rétt að nefna að stærstu stofnanir á sviði vinnumarkaðsransókna á Norðurlöndum svo sem Fafo í Noregi eru fjármagnaðar að talsverðu leyti af stéttarfélögum enda eru það hagsmunir þeirra að tryggja að þekking liggi fyrir um þau atriði og sjónarmið sem skipta þau máli. Annað dæmi eru samtökin Viðskiptaráð Íslands sem rannsaka ákveðin málefni í tengslum við sjónarmið vinnuveitenda til að koma þeim á dagskrá í samfélagslegri umræðu.

Höfundur dregur einnig í efa að sjónarmið þátttakenda í eigindlegum rannsóknum skipti yfir höfuð máli:

„Samt er þetta kynnt sem vísindaleg niðurstaða um „áhrif á jafnrétti“ og fabúleringum viðmælenda, sem eiga ekki við nein rök að styðjast, er slegið upp í fyrirsögnum.“

Eigindleg aðferðafræði á rætur sínar að rekja til umræðu um valdatengsl í fræðilegum rannsóknum, þar sem það hefur í gegnum tíðina verið aðallega forréttindafólk sem mótaði þekkingu um samfélagið. Sjónarmið jaðarsettra hópa og minnihlutahópa hafa vegna ýmissa ástæðna ekki alltaf ratað inn í meginstraum þekkingarsköpunar og það getur takmarkað skilning okkar á samfélaginu og þeim áskorunum sem við mætum. Eigindlegar rannsóknir hafa náð að skapa verðmæta þekkingu sem hefur stutt okkur í þeirri viðleitni að bæta samfélagið fyrir öll, t.d. á sviði menntunar og jafnréttis. Það er ekki í samræmi við jafnréttissjónarmið að afgreiða reynslu viðmælenda sem órökréttar fabúleringar, þvert á móti byggja eigindlegar rannsóknir á að virðing sé borin fyrir ólíkum leiðum til að vera til og sjá heiminn með það að markmiði að draga lærdóm af því. Án eigindlegra rannsókna er erfitt að vinna að jafnrétti í samfélaginu, t.d. í skólum eða á vinnustöðum, þar sem jafnrétti snýst ekki um hvað hentar flestum, heldur öllum.

Að lokum segir höfundur að „(það séu) fæstir sem gefa sér tíma til að kynna sér „rannsóknina“ eða gera sér grein fyrir því hvernig hún er unnin“. Það er einmitt mikilvægt að fólk kynni sér vel rannsóknarskýrslur til að skilja forsendur og til að geta rætt niðurstöður á viðeigandi hátt. Við þurfum að gera það alltaf, ekki bara þegar skýrsla er fjármögnuð af pólitískum andstæðingum eða byggir á eigindlegri aðferðafræði, því það eykur möguleika okkar til að eiga mikilvæg samtöl um hvernig við getum bætt framtíð okkar allra.

Höfundur er prófessor við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands

Heimildir:

Taylor, S.J., Bogdan R. & DeVault, M.L. (2016). Introduction to qualitative research methods: A guidebook and resource, 4. útgáfa. Hoboken, New Jersey: John Wiley & Sons




Skoðun

Sjá meira


×