Tíska og hönnun

Kasóléttur forystusauður, ungstirni og engilfagrar kanónur

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Stærstu stjörnur fyrirsætuheimsins sýndu sig á tískusýningu Victoria's Secret í gær.
Stærstu stjörnur fyrirsætuheimsins sýndu sig á tískusýningu Victoria's Secret í gær. Getty

Tískusýning undirfatarisans Victoria's Secret fór fram í gærkvöld en þar mátti sjá kasólétta Jasmine Tooks stíga fyrsta á svið, fjölmargar glæsilegar kanónur rifja upp gamla takta og nýliða sem skinu skært.

Tískusýningin var fyrst haldin 1995 og fór fram árlega næstu 23 árin. Margar af frægustu ofurfyrirsætum heims hafa tilheyrt hópi englanna, Heidi Klum, Tyru Banks, Gisele Bundchen, Naomi Campbell, Adriana Lima, Miranda Kerr og Kendall Jenner meðal fjölmargra annarra.

En sýningin hefur ekki verið óumdeild og eftir ummæli Edwards Rezak, skipuleggjanda sýningarinnar, um transkonur árið 2018 hríðféll áhorfið. Rezak sagði af sér og var sýningin lögð niður í fjögur ár. Hún sneri aftur 2023 og er enn á ný einn stærsti árlegi viðburður tískuheimsins.

Sýningin hefur bæði verið vettvangur fyrir nýja fyrirsætur og þær eldri auk þess sem heimsfrægir tónlistarmenn troða þar gjarnan upp. Hipp-hopp-goðsögnin Missy Elliot tróð upp í ár auk Madison Beer, Karol G og K-pop-sveitarinnar Twice.

En hvað stóð upp úr í ár? Hér fyrir neðan má sjá stærstu augnablikin.

Candice Swanepoel, Adriana Lima, Bella Hadid, Jasmine Tookes, Alex Consani, Gigi Hadid, Yasmin Wijnaldum og Alessandra Ambrosio.Getty

Kasólétt Jasmine Tookes hóf sjófið

Bandaríska fyrirsætan Jasmine Tookes steig fyrst á svið í gylltum klæðum og umvafin eins konar gullbúri. Vera hennar á sviðinu var þó merkilegust fyrir þær sakir að hún er kasólétt.

Jasmine Tookes geislaði á pallinum.Getty

Hún er ekki sú fyrsta sem gengur eftir tískupallinum ólétt, Heidi Klum, Alessandra Ambrósio, Lily Aldridge, Doutzen Kroes og Irina Shayk hafa allar gert það áður. 

Munurinn er þó sá að Tookes er á síðasta þriðjungi meðgöngunnar og því mun lengra gengin en hinar voru. Óléttubumba hefur því aldrei fengið jafn mikið pláss og í ár.

Glæsileg Gigi og endurkoma Bellu Hadid

Palestínsk-amerísku systurnar Bella og Gigi Hadid hafa verið meðal stærstu súpermódela heims síðustu tíu ár. Hins vegar hefur lítið farið fyrir Bellu síðustu tvö ár vegna glímu hennar við Lyme-sjúkdóm.

Hún var þó mætt á sviðið í gær, rétt eins og eldri systir hennar og voru þær einkar glæsilegar.

Bella Hadid fór í smá pásu vegna veikinda.Getty
Gigi Hadid í bleiku.Getty

Nýjar stjörnur á leiðinni

Fyrirsæturnar sem ganga eftir tískupallinum á sýningu Victoria's Secret hafa gjarnan verið hluti af ákveðinni elítu fyrirsætuheimsins og þátttaka í sýningunni merki um ákveðinn súperstjörnu-status. 

Það er því mikill heiður fyrir ungar og upprennandi fyrirsætur að fá tækifærið og hafa ferlar fjölmargra fyrirsæta tekið á loft með þátttöku, þar á meðal Miröndu Kerr, Kendall Jenner og fyrrnefndra Hadid-systra.

Nokkur ný nöfn fengu að spreyta sig í ár: Iris Law, Alex Consani og Lila Moss.

Ungstirnið Alex Consani er fædd 2003.Getty
Iris Law í hipphopp-legri múnderingu.Getty

Fyrirsætur úr óvæntum áttum

Einnig hafa konur úr öðrum geirum fengið að spreyta sig á sýningunni gegnum tíðina. 

Úr heimi íþróttina bættust Angel Reese, framherji Chicago Sky og frákastameistari WNBA-deildarinnar, og Suni Lee, fimleikakona og tvöfaldur Ólympíumeistari, við fyrirsætuhópinn.

Angel Reese kann meira en að grípa körfubolta.Getty
Fimleikakonan Suni Lee var glaðbeitt.Getty

Einnig má þar nefna leikkonuna Barbie Ferreira, sem öðlaðist frægð þegar hún lék í sjónvarpsþáttunum Euphoria á HBO fyrir nokkrum árum, og áhrifavaldinn Quenlin Blackwell sem sprakk fyrst út á Vine sem táningur.

Barbie Ferrera í töffaralegum gallajakka.Getty
Quenlin Blackwell hóf ferilinn á að grínast á samfélagsmiðlum.Getty

Loks má nefna söngkonuna Madison Beer sem tróð ekki aðeins upp heldur heillaði líka gesti á tískupallinum.

Madison Beer er margt til lista lagt.Getty

Gömlu brýnin gleyma engu

Auk ýmissa nýliða og yngri fyrirsæta mættu reyndari kanónur á svæðið.

Þar má nefna brasilísku bombuna Adriönu Lima, rússneska súperstjarnan Irina Shayk og hin suðurafríska Candice Swanepoel.

Irina Shayk kallar ekki allt ömmu sína.Getty
Adriana Lima var titluð verðmætasti Victoria's Secret-engillinn árið 2017.Getty
Candice Swanepoel hefur verið meðal tekjuhæstu módela heims síðustu ár.Getty

Þá heillaði Emily Ratjakowski gesti upp úr skónum en hún fór um tíma meira út í leiklist en fékk nóg af leiklistarbransanum og er kominn aftur á fullt í tískuna.

Emily Ratjakowski færði sig meira út í leiklist en leiddist bransinn. Tískuheimurinn hagnast á því.Getty





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.