Körfubolti

Náði því sem bara Bill Russell hefur gert í sögu NBA og WNBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
A'ja Wilson fagnar með liðsfélögum sínum í Las Vegas Aces í nótt.
A'ja Wilson fagnar með liðsfélögum sínum í Las Vegas Aces í nótt. Getty/Christian Petersen

Las Vegas Aces tryggði sér WNBA-meistaratitilinn í körfubolta í nótt en liðið vann alla fjóra leikina í lokaúrslitunum á móti Phoenix Mercury.

Aces vann fjórða leikinn 97-86 og yfirburðirnir voru miklir. Las Vegas Aces liðið vann þar með sinn þriðja WNBA-meistaratitil á fjórum árum.

Risastjarna Aces og fjórfaldur verðmætasti leikmaður deildarinnar, A'ja Wilson, leiddi liðið í lokaleiknum með 31 stigi, 9 fráköstum, 4 stoðsendingum og 3 vörðum skotum. Það tryggði henni titilinn verðmætasti leikmaður úrslitakeppninnar.

Hún var með 28,5 stig, 11,8 fráköst og 2 varin skot að meðaltali í úrslitunum.

„Þú hefur þitt Mount Rushmore, hún er ein á Everest,“ sagði Becky Hammon, þjálfari Aces. „Það er enginn nálægt henni.“

A'ja Wilson var þarna að ná því sem bara Bill Russell hefur náð í sögu NBA og WNBA. Á síðustu fjórum árum hefur hún unnið þrjá meistaratitla og þrisvar sinnum verið kosin verðmætasti leikmaður deildarinnar. Fram að því hafi Russel, mesti sigurvegarinn í sögu NBA, verið sá eini í þessum klúbbi í sögu deildanna tveggja.

Fyrstu tvo mánuði tímabilsins náðu leikmenn Aces ekki saman. Þær töpuðu fyrsta leik tímabilsins með fjórtán stiga mun í New York, sveifluðust síðan í kringum fimmtíu prósent vinningshlutfall í júní og júlí og voru með fleiri tapað en sigra allt fram til 25. júlí.

Sextán leikja sigurganga undir lok deildarkeppninnar tryggði Aces sér annað sætið í úrslitakeppninni og þær komust í gegnum erfiðar viðureignir í fyrstu umferð og undanúrslitum sem fóru í oddaleik áður en þær sýndu yfirburði í lokaúrslitunum.

„Ég elska að vera þjálfari þeirra, ég elska að vera vinur þeirra. Að ýta þeim stundum aðeins meira en þær vilja,“ sagði Hammon, sem tók við sem þjálfari Aces árið 2022 og er með 10-2 árangur í lokaúrslitum WNBA. „Þessi sigur er öðruvísi vegna þess að hann var öðruvísi. Það var líklega mun meira mótlæti en nokkur okkar bjóst við. Við erum öll mannleg og við erum manneskjur sem vildu gera hlutina rétt, og gera þá rétt saman,“ sagði Hammon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×