Erlent

Vopna­hlé tekur gildi

Samúel Karl Ólason skrifar
Palestínumenn fögnuðu margir í dag eftir að fregnir bárust af því að samkomulag um vopnahlé lægi fyrir.
Palestínumenn fögnuðu margir í dag eftir að fregnir bárust af því að samkomulag um vopnahlé lægi fyrir. AP/Jehad Alshrafi

Ríkisstjórn Ísrael hefur staðfest samkomulag um vopnahlé á Gasaströndinni. Leiðtogar Hamas-samtakanna hafa einnig samþykkt samkomulagið og hefur vopnahlé því tekið gildi.

Samkomulagið er sagt vera fyrsti fasinn í að koma á friði á svæðinu. Samkomulagið á að fela í sér að Hamas-liðar sleppi þeim tuttugu gíslum sem þeir halda enn og að Ísraelar sleppi um tvö þúsund Palestínumönnum sem þeir halda föngum.

Þá eiga ísraelskir hermenn einnig að hörfa á Gasaströndinni.

Óljóst hvenær gíslunum og föngunum verður sleppt en það á að gerast á næstu dögum. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði í dag að það ætti að gerast á mánudaginn eða þriðjudaginn. Þá þykir ekki ljóst hvort Hamas-liðar muni láta þau 28 lík gísla sem þeir halda af hendi en því er haldið fram í yfirlýsingu frá embætti forsætisráðherra Ísrael.

Þar að auki er framhaldið einnig nokkuð óljóst og þá sérstaklega hvað varðar þá kröfu Ísraela og Bandaríkjamanna um að Hamas-liðar leggi niður vopn og hverjir eigi að fara með stjórn Gasa. Auk þess er einnig nokkur óvissa varðandi hvert ísraelskir hermenn munu hörfa.

Al Jazeera hefur eftir bandarískum embættismönnum sem ræddu við blaðamenn í dag að næsti fasi friðaráætlunarinnar væri mun flóknari en sá fyrri.

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna er að senda um tvö hundruð hermenn sem eiga að koma að því að tryggja að skilmálum samkomulagsins verði framfylgt. Samkvæmt heimildum AP fréttaveitunnar er ekki búist við því að þeir verði sendir til Gasa.

Fréttin verður uppfærð.


Tengdar fréttir

Segjast hafa verið neydd til að krjúpa tímunum saman og lýsa yfir ást sinni á Ísrael

Lögmenn Frelsisflotans hittu í gær 100 af 145 aðgerðasinnum sem Ísraelsher handtók í gær á leið sinn til Gasa með hjálpargögn. Þeir lýsa meiðandi og niðurlægjandi framkomu í sinni garð af hálfu Ísraelshers á meðan stöðvun skipanna stóð og eftir handtöku. Ræðismaður Finnlands í Ísrael mun í dag hitta Margréti Kristínu Blöndal, Möggu Stínu, og aðra norræna aðgerðasinna sem voru um borð í skipinu Conscience. 

Myndir: Hágrátið og hlegið þegar fréttir bárust af friðarsamkomulagi

Tilfinningar báru íbúa ofurliði og víða mátti sjá tár á hvarmi á Gasa þar sem margir trúðu ekki eigin eyrum þegar fregnir bárust af því að friðarsamkomulag á milli Hamas og Ísrael væri í höfn. Hið sama var uppi á teningnum í Ísrael þar sem margir ættingjar hafa óttast um örlög gísla sem hafa verið í haldi Hamas síðustu tvö ár. Myndir má sjá neðst í fréttinni.

„Ég held að það sé sterk friðarvon núna“

Erlingur Erlingsson hernaðarsagnfræðingur segir Ísraela og Hamas-liða í dauðafæri á að ná samkomulagi um varanlegan frið á Gasa og í Palestínu. Stóra prófið sé fundur ríkisstjórnar Ísraels í dag þar sem þarf að samþykkja samkomulagið. Eftir það taki við lausn gísla, brottlutningur Ísraelshers frá Gasa og flutningur hjálpargagna inn á svæðið. 

Trump segir Hamas og Ísraela hafa náð samkomulagi

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur tilkynnt að Ísraelar og leiðtogar Hamas hafi komist að samkomulagi um að koma á friði á Gasaströndinni. Öllum gíslum í haldi Hamas verði sleppt innan skamms og Ísraelar fjarlægi hermenn sína í þessum fyrsta fasa samkomulagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×