Innlent

Nýsestur á skrif­stofunni þegar hann fékk bíl í flasið

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Lögregla kannar aðstæður á vettvangi.
Lögregla kannar aðstæður á vettvangi.

Jóhann Rúnarsson eigandi dekkjaverkstæðisins Pitstop Selfossi var nýsestur í skrifstofustólinn í morgun þar sem hann ætlaði að ganga frá dekkjapöntunum þegar hann fékk bíl í flasið. Betur fór en á horfðist þegar óheppnum eldri borgara varð á að ýta á bensíngjöfina í stað bremsu þar sem hann var á leið með bílinn í dekkjaskipti og slasaðist enginn alvarlega.

„Ætli ég hafi ekki flogið svona fjóra metra í stólnum áður en ég lenti út í horni. Það er algjör þvæla að ég hafi ekki slasast, ég er marinn og bólginn en það er allt í lagi. Þetta var rosalegt, ég flaug bara upp úr stólnum, sat þarna við gluggann þegar hann keyrði inn,“ segir Jóhann, oftast þekktur sem Jói í Pitstop. Hann segir mildi að enginn hafi slasast alvarlega.

„Ég var nýsestur, í tölvunni að ganga frá dekkjapöntunum og dóti og heyri þá þessi svakalegu læti, þar til ég stend allt í einu bara út í horni, það var ofn þarna á veggnum og hann braut hann í tvennt og henti honum á mig,“ segir Jói sem segir mildi að enginn hafi slasast alvarlega. Bílstjórinn er á tíræðisaldri og er til skoðunar á heilbrigðisstofnun með minniháttar áverka að sögn Jóa.

Hann segist vongóður um að tryggingar muni dekka tjónið, sem ljóst er að sé mikið. „Tölvukerfin og skrifborðin, þetta muldist allt niður. Skjáirnir og allt saman, þannig þetta er mikil tjón. Þetta kemur í ljós,“ segir Jói sem var í óðaönn að gera við verkstæðið þegar Vísir náði af honum tali.

Hann segir stefnt að því að opna verkstæðið aftur innan skamms. „Við opnum á eftir. Við erum að ganga frá þessu núna og stilla þessu öllu upp saman aftur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×