Viðskipti innlent

Nú er ekki hægt að af­skrá flug­vélar nema að greiða gjöldin

Árni Sæberg skrifar
Play leigði vélina af kínverska félaginu CALC.
Play leigði vélina af kínverska félaginu CALC.

Innviðaráðherra hefur breytt reglum um afskráningu loftfara þannig að framvegis þarf umráðamaður loftfara að leggja fram staðfestingu á að flugvallagjöld hafi verið greidd.

Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra undirritaði reglugerð um skilyrði til afskráningar loftfara af loftfaraskrá í gær. Í reglugerðinni segir að loftfar skuli tekið af skrá að uppfylltum fyrri skilyrðum laga um loftferðir auk nýrra skilyrða.

Sanna þarf greiðslu flugvalla- og þjónustugjalda

Þau feli í sér að skráður eigandi og/eða umráðandi loftfars hafi lagt fram staðfestingu á að gerð hafi verið skil á gjöldum samkvæmt greinum laganna um gjaldtöku vegna flugvalla og þjónustu vegna þess loftfars sem beiðni um afskráningu lýtur að, en gjöldin séu tryggð með lögveði. 

Einnig sé heimilt að taka loftfarið af skrá ef eigandi og/eða umráðandi loftfars leggur fram staðfestingu lögveðshafa um að samið hafi verið um uppgjör gjaldanna eða lögveðshafi staðfesti á annan hátt að fullnægjandi trygging hafi verið sett fyrir greiðslu þeirra.

Gildir um þegar fram komnar beiðnir

Þá segir að reglugerðin taki þegar gildi og taki einnig til beiðna um afskráningu sem þegar eru til meðferðar.

Fjallað hefur verið um það að ein flugvél hins gjaldþrota Play sé enn hér á landi og sé í eigu kínversks félags. Óljóst er hvort, og þá hvenær, eigendurnir geti sótt vélina til Íslands þar sem Play skuldar Isavia lendingargjöld.

Fram kom í tilkynningu Isavia á mánudag að útistandandi viðskiptaskuldir Play væru eingöngu sem nemur ágúst- og septembermánuðum. Isavia myndi leita þeirra lagaúrræða sem til staðar eru til innheimtu þeirra. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×