Skoðun

Mannauðurinn á vinnu­staðnum þarf góða inni­vist til að dafna

Ásta Logadóttir skrifar

Það er einfalt: ef við viljum að fólk standi sig, njóti sín og þrífist í vinnunni, þá verðum við að skapa aðstæður sem gera það mögulegt. Samt sjáum við of oft að innivistarþættir eins og dagsljós, hljóðvist, loftgæði og hitastig eru afgangsstærðir í hönnun vinnustaða.

Við vitum flest hvað skiptir máli fyrir heilsu okkar – hreyfing, svefn, næring, útivera. En hversu oft gleymum við því að við eyðum stærstum hluta lífsins innandyra? Það er þar sem við þurfum að tryggja heilnæmt umhverfi. Ef við gerum það ekki, þá borgum við verðið: starfsfólk með skerta heilsu, minni einbeitingu og minni orku. Það kostar bæði einstaklingana, fyrirtækin og samfélagið.

Þættir eins og hljóð, ljós og loft eru ekki smáatriði – þau móta beinlínis hvernig okkur líður og hvernig við vinnum. Rétt lýsing getur stutt við afköst, dægursveifluna og bætt svefngæði. Útsýni dregur úr streitu. Góð hljóðvist eykur einbeitingu og vellíðan. Loftgæði og hitastig ræður miklu um vellíðan okkar og frammistöðu. Þetta er ekki lúxus; þetta er grunnforsenda heilbrigðs vinnulífs.

Hins vegar eru of margir vinnustaðir á Íslandi hannaðir til að uppfylla lágmarkskröfur – eða jafnvel hannaðir til að sniðganga lágmarkskröfur. Enn er algengt að starfsfólk vinni dögum saman eða tímum saman í rýmum án glugga, án dagsljóss og án tengingar við umhverfið. Og samt er ætlast til að það skili hámarksárangri. Í nágrannalöndunum þætti þetta óásættanlegt. Af hverju sættum við okkur við það?

Vandinn er að verktakar byggja til að selja eða leigja út, ekki með heilsu framtíðarstarfsmanna í huga. Það er því ánægjulegt þegar fyrirtæki stíga fram og byggja fyrir sig með vellíðan starfsmanna að leiðarljósi. Slík verkefni sýna að það er hægt – og ættu að vera fyrirmynd fyrir fleiri.

Draumurinn er að við hættum að líta á góða innivist sem valfrjálst aukaatriði. Hún er forsenda þess að við getum dafnað í vinnunni. Hún er fjárfesting í starfsfólki, fyrirtækjum og samfélaginu öllu.

Meira dagsljós, betri loftgæði, þægilegt hitastig, góð hljóðvist og útsýni sem dregur úr streitu – það er ekki of mikið að biðja um. Það er lágmarkskrafa.

Höfundur er verkfræðingur PhD hjá Lotu ehf.




Skoðun

Sjá meira


×