Körfubolti

„Eina leiðin að segja já og amen við dómaranefndina“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sigurður (t.v.) og Helgi (t.h.) þóttu efnilegir dómarar en hrökkluðust fljótt frá störfum. Þeir bera dómaranefnd KKÍ ekki vel söguna.
Sigurður (t.v.) og Helgi (t.h.) þóttu efnilegir dómarar en hrökkluðust fljótt frá störfum. Þeir bera dómaranefnd KKÍ ekki vel söguna. Aðsend

Spjót hafa beinst að KKÍ vegna dómaramála innan sambandsins og gagnrýna bræðurnir Helgi og Sigurður Jónssynir starfsumhverfið sem þeim var boðið upp á. Báðir upplifðu sem svo að þeim hefði verið ýtt til hliðar úr dómarastéttinni.

Davíð Tómas Tómasson opnaði á umræðuna um dómaramál innan KKÍ í síðustu viku. Davíð hefur verið á meðal fremri dómara landsins, til að mynda valinn dómari ársins í Bónus deild karla þarsíðasta vetur. Hann fékk hins vegar fá verkefni frá sambandinu í fyrra og hefur nú verið vísað alfarið frá dómarastörfum í vetur.

Davíð nefndi í viðtali við Vísi að öðrum kollegum hefði verið ýtt frá dómarastörfum, þrátt fyrir hæfni til að dæma á meistaraflokksstigi hérlendis. Þar á meðal var Jón Guðmundsson, sem var vísað frá þegar hann hugðist snúa aftur eftir stutt stopp í þjálfun. Jón sagði við Vísi að honum hafi þótt það skítt.

Þurfi að segja „Já og Amen“

Þeir Helgi og Sigurður Jónssynir dæmdu einnig á tímabili. Þeir þóttu efnilegir dómarar, enda þreyttu þeir báðir frumraun sína í efstu deild karla aðeins 19 ára gamlir, árið 2019.

Þeir segja farir sínar ekki sléttar eftir að þeim hafi verið bolað úr dómarastarfinu af dómaranefnd sambandsins.

„Mín fyrstu kynni af dómaranefnd voru mjög góð. Ég byrjaði ungur að dæma og fékk tækifæri frekar fljótt í efstu deildunum. Eftir formannsskiptin í dómaranefnd fóru samskiptin að verða erfiðari. Mín upplifun af dómaranefnd á sínum tíma var sú að ekki væri verið að byggja upp samstöðu milli dómaranefndar og dómaranna, heldur þvert á móti. Svo gerist það að ég var tekinn af niðurröðun í tæpan mánuð,“ segir Helgi af sinni upplifun.

„Aldrei fékk ég og hef enn ekki fengið almennilegar skýringar á því frá dómaranefnd hvort eða hvað það var sem varð til þess að vera tekinn af niðurröðun. Á þessum tíma fékk ég símtöl frá reyndari mönnum úr dómarahópnum. Þeir höfðu heyrt af einhverju ósætti og ráðlögðu að eina leiðin til að leysa svoleiðis mál við dómaranefnd væri að segja „já og amen“ við þá ef ég ætlaði mér að eiga einhverja framtíð sem körfuknattleiksdómari á Íslandi.“

„Ég gafst upp að lokum og hætti. Eitthvað sem var frekar sárt þar sem ég hafði helgað dómgæslu lífi mínu,“ bætir Helgi við.

Illa tekið í gagnrýni

Bróðir hans, Sigurður, var ófeiminn við að láta gagnrýni í ljós með það sem betur mátti fara hjá nefndinni og í dómaramálum almennt. Ekki hafi verið tekið vel í það. Leiðinlegt hafi þeim þótt að hafa aldrei fengið tækifæri til að dæma saman.

„Ég er ófeiminn við að segja mínar skoðanir og ég var ég ekki búinn að starfa lengi sem dómari þegar mér var tjáð að betra væri stundum að sitja á skoðunum sínum gagnvart dómaranefnd. Ekki væri tekið vel í skoðanir á störfum dómaranefndar þótt þær ættu fyllilega rétt á sér,“ segir Sigurður og bætir við:

„Ég skildi ekki heldur hvers vegna við Helgi bróðir fengum aldrei að dæma saman. Ástæða þess, að sögn dómaranefndar, var sú að þeir vildu ekki fjölskyldutengsl inná völlinn. Sem eru skrýtin rök að styðjast við þar sem það eru til nokkur dæmi um að fjölskyldumeðlimir hafa dæmt saman.“

Vikið undan ábyrgð og ekki starfað af heilindum

Fulltrúar KKÍ og dómaranefndar sambandsins hafa lítið tjáð sig um málið, þrátt fyrir hávært ákall frá körfuboltasamfélaginu um slíkt í síðustu viku. KKÍ sendi frá sér yfirlýsingu á fimmtudag í síðustu viku þar sem sagði að sambandið gæti ekki tjáð sig um starfsmannamál þess.

Þeir bræður gagnrýna yfirlýsinguna og að hún hafi orðið til þess að þeir gátu ekki setið á sér.

„Yfirlýsingin sýndi, að mínu mati, svart á hvítu að KKÍ víkur frá sinni ábyrgð með því að sýna svo lítinn vilja eða getu til að bæta úr þeirri stöðu sem upp er komin. Það hefur verið mín reynsla að sé ekki farin sú leið sem dómaranefnd og KKÍ vill fara - að þá er engin leið önnur en að menn hætti að dæma eða verið teknir alfarið af allri niðurröðun,“ segir Helgi.

Sigurður tekur undir með Helga og segir þá aðila sem starfi að dómaramálunum ekki sinna sínu starfi af heilindum.

„Það er enginn vilji til þess að taka á erfiðum málum heldur einungis beita boðum og bönnum. Það er enginn dómari fastráðinn starfsmaður heldur er fólk sem fer út í dómgæslu að gera hlutina af ástríðu,“ segir Sigurður

„Að láta egó einstaklinga innan sambandsins standa í vegi fyrir því að það sé hægt að lyfta körfunni á hærra plan er afar sorgleg þróun. Þeir einstaklingar sem eru kosnir af félögunum í deildinni virðast ekki gera hlutina af heilindum. Þessi vinnubrögð þurfa að breytast strax, fyrir körfuboltann í landinu,“ bætir Sigurður við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×