Erlent

Ekki pappírstígur heldur al­vöru björn

Samúel Karl Ólason skrifar
Dmitrí Peskóv og Vladimír Pútín.
Dmitrí Peskóv og Vladimír Pútín. EPA/SERGEI ILNITSKY

Ráðamenn í Rússlandi gefa lítið fyrir þau ummæli Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, um að Úkraínumenn geti sigrað Rússa. Rússar muni sigra Úkraínu, af því þeir eigi engra annarra kosta völ og ætla þeir því ekki að hætta hernaði sínum í Úkraínu fyrr en markmiðum þeirra hafi verið náð.

Þetta er meðal þess sem Dmitrí Pesókv, talsmaður Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, sagði í útvarpsviðtali í morgun.

Þar var hann spurður út í ummæli Trumps eftir fund hans með Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu í gær. Þá kallaði Trump Rússa „pappírs tígur“ og sagði innrás þeirra í Úkraínu ekki hafa skilað þeim neinu og þess í stað afhjúpað hernaðarlegan veikleika þeirra.

Sjá einnig: Rússland sé „pappírs tígur“ og Úkraínumenn geti unnið landið aftur

Í viðtalinu sagði Peskóv að Rússland væri ekki tígur, heldur björn. Það væri ekkert til sem héti pappírs björn.

„Rússland er raunverulegur björn,“ sagði Peskóv.

„Við erum engir pappírspésar.“

Peskóv sagði einnig að Rússar myndu vinna stríðið. Annað væri ekki í boði.

„Við erum nú í mikilvægasta fasa stríðsins og hann skiptir miklu máli. Við verðum að sigra fyrir börnin okkar, barnabörnin og framtíð þeirra,“ sagði Peskóv.

Hann sagði ráðamenn í Rússlandi staðráðna í að vinna gegn „grunnástæðum“ stríðsins í Úkraínu.

Þegar ráðamenn í Rússlandi tala um „grunnástæður“ stríðsins eru þeir að vísa til krafna þeirra um að ríkjum Austur-Evrópu verði vísað úr NATO.

Trump hefur um nokkuð skeið reynt að fá Pútín til að samþykkja fund með Selenskí, annars staðar en í Moskvu. Það hefur Pútín ekki viljað samþykkja og hafa Rússar vísað til þess að undirbúa þurfi slíkan fund vel, með skipulagsfundum og viðræðum.

Það ítrekaði Peskóv í viðtalinu og sagði hann að óundirbúinn fundur myndi engum árangri skila.

Þrátt fyrir þau ummæli og að hann hafði áður sagt að Rússar myndu sigra Úkraínu og að þeir myndu ekki hætta innrásinni fyrr en markmiðum þeirra hefði verið náð, gagnrýndi Peskóv Selenskí fyrir að koma ekki til Moskvu og ræða við Pútín, eins og honum hefur verið boðið.

„Af hverju kemur hann ekki? Ef hann er tilbúinn til viðræðna, af hverju kemur hann þá ekki?“ spurði Peskóv. Rússar hafa nokkrum sinnum reynt að ráða Selenskí af dögum frá því innrás þeirra í Úkraínu hófst. Það gæti spilað inn í.

Almenningur standi með Pútín

Talsmaðurinn sagði einnig á kristaltæru að hinn yfirgnæfandi meirihluti Rússa sem stæði við bakið á Pútín væri tilbúinn til að taka á sig frekari efnahagslegar byrðar. Þjóðin væri sameinuðu að baki Pútíns.

Hann bætti við að aðstæður í Rússlandi væru þrátt fyrir allt mun „jafnara, fyrirsjáanlegra og stöðugra“ í Rússlandi en öðrum ríkjum.

Kúvending Trumps kom á óvart

Selenskí var í viðtali hjá Fox í gærkvöldi þar sem hann sagði viðsnúning Trumps hafa komið sér á óvart. Hann og Trump væru þó byrjaðir að tala oftar saman og samband þeirra hefðu skánað til muna að undanförnum.

Hann sagði líka að það að Pútín hefði ítrekað logið að Trump spilaði inn í bætt samband þeirra.

Þegar kemur að ummælum Trumps um að Úkraínumenn gætu rekið Rússa á brott frá Úkraínu sagðist Selenskí þeirrar skoðunar að Trump skildi að þetta stríð snerist ekki um landsvæði og að ekki væri í raun hægt að koma á friði með því að skiptast á landi.

Þá ítrekaði Selenskí í viðtalinu að hann vildi binda enda á stríðið eins fljótt og hægt væri. Pútín væri hins vegar ekki tilbúinn til viðræðna í góðri trú og þar að auki þyrftu Úkraínumenn að vera í sterkri stöðu.


Tengdar fréttir

Segir Pólverja ekki muna hika við að skjóta „hluti“ niður

Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, segir að hermenn og flugmenn ríkisins muni ekki hika við að skjóta niður hluti sem eru óvelkomnir í lofthelgi Póllands og taldir eru ógna öryggi fólks. Hann sagði þó einnig að stigið yrði varlega til jarðar í óskýrum aðstæðum.

Segir Pútín hafa valdið sér „miklum vonbrigðum“

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að Vladimír Pútín, kollegi hans í Rússlandi, hafi valdið sér miklum vonbrigðum síðan Trump varð aftur forseti. Það væri vegna þess hve erfitt hefði verið að fá Pútín til að láta af árásum sínum á Úkraínu og semja um frið.

NATO og Rússland „augljóslega“ í stríði

Atlantshafsbandalagið og Rússland eiga „augljóslega“ í stríði. Þetta sagði Dmitrí Peskóv, talsmaður Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, við blaðamenn í Moskvu í morgun. Stuðningur margra ríkja NATO við Úkraínu jafngilti  að bandalagið væri í raun og veru stríð við Rússland. Það væri augljóst að stríðsástand ríkti.

Óttast gremju uppgjafahermanna í Rússlandi

Ráðamenn í Rússlandi hafa sífellt meiri áhyggjur af því hvaða áhrif hundruð þúsunda uppgjafahermanna sem snúa aftur frá innrásinni í Úkraínu muni hafa í Rússlandi. Meðal þess sem þeir óttast er að uppgjafahermenn muni ýta undir glæpastarfsemi og óöld í Rússlandi og stendur til að reyna að koma mörgum þeirra í opinber störf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×