Innlent

Að­eins helmingur telur sig við góða heilsu

Samúel Karl Ólason skrifar
Um 38 prósent þeirra sem tóku þátt í þriðju lotu rannsóknarinnar segjast hreyfa sig þrisvar til fjórum sinnum í viku.
Um 38 prósent þeirra sem tóku þátt í þriðju lotu rannsóknarinnar segjast hreyfa sig þrisvar til fjórum sinnum í viku. VísiR/Vilhelm

Einungis helmingur stórs hóps 36 ára Íslendingar sem tekur þátt í gagnasöfnun Heilsuferðalagsins telur sig við góða heilsu. Um helmingur þeirra er einnig í ofþyngd og fimmtungur þeirra á við offitu að stríða.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í fyrstu niðurstöðum þriðju gagnasöfnunar Heilsuferðalagsins, sem er langtímarannsókn við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri og nær til um þúsund Íslendinga sem fæddust árið 1988.

Rannsóknin gengur út á að skoða þróun andlegrar, félagslegrar og líkamlegrar heilsu þessara Íslendinga. Fyrst var púlsinn tekinn á þeim árið 2003, þegar þeir voru fimmtán ára. Önnur gagnasöfnunin fór svo fram árið 2011, þegar þeir voru 23 ára og sú þriðja hófst í október í fyrra og lauk í júní.

Í tilkynningu segir að í þessari þriðju lotu hafi 486 Íslendingar tekið þátt, þar af 64 prósent konur. Alls hafa um þúsund Íslendingar tekið þátt í rannsókninni.

Niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar ítarlega á ráðstefnu Heilsuferðalagsins í dag. Hún hefst klukkan 12:30 og má fylgjast með henni í spilaranum hér að neðan.

Margir í yfirþyngd

Í áðurnefndri tilkynningu segir að líkamsþyngdarstuðull þátttakenda við 36 ára aldur bendi til þess að tæpur helmingur þeirra sé í ofþyngd og um fimmtungur eigi við offitu að stríða. Við fimmtán ára aldur voru fimmtán prósent þátttakenda í ofþyngd og tæp tvö prósent flokkuðust með offitu.

Varðandi hreyfingu sögðust um 22 prósent ekkert hreyfa sig. Jafn margir sögðust hreyfa sig einu til tvisvar sinnum í viku. Um 38 prósent sögðust hreyfa sig þrisvar til fjórum sinnum í viku.

Þá sögðust um 37 prósent þátttakenda finna mjög oft eða oft fyrir mikilli streitu í daglegu lífi. Sextíu prósent mældust með hækkaðan eða of háan blóðþrýsting.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×