Skoðun

Nú þarf bæði sleggju og vélsög

Trausti Hjálmarsson og Ólafur Stephensen skrifa

Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, boðaði einföldun regluverks atvinnulífsins í stefnuræðu sinni á dögunum. Forsætisráðherra tiltók þar sérstaklega leyfisveitingakerfið í orkumálum, jafnlaunavottun og byggingarreglugerðina. Þetta eru jákvæðar fréttir og góð fyrirheit. Atvinnurekstur á Íslandi, hvort heldur það eru bændur og aðrir matvælaframleiðendur eða lítil og meðalstór fyrirtæki í t.d. innflutningi, býr við of þungt og flókið regluverk. Ef reglurnar eru flóknari en í nágrannalöndunum er samkeppnisstaða íslenskra atvinnurekenda skert og þeir eiga erfiðara með að standast erlendum keppinautum snúning, hvort sem það er á innlendum markaði eða alþjóðlegum.

Gullhúðun er óþolandi

Stór hluti regluverks atvinnulífsins kemur frá Evrópusambandinu, í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það má hafa ýmsar skoðanir á Evrópureglunum – þær tryggja litlu landi nútímalega löggjöf og veita aðgang að stærsta markaðssvæði heims, þótt mörgum þyki þær oft flóknar og íþyngjandi. En það er óþolandi og á ekki að viðgangast þegar íslensk stjórnvöld bæta við reglurnar séríslenskum íþyngjandi kvöðum. Það hefur verið kallað gullhúðun og verður þess valdandi að íslenskur atvinnurekstur stendur að ósekju höllum fæti gagnvart keppinautum á EES.

Gullhúðunin á sér margar birtingarmyndir – t.a.m. að Evrópuregluverkið sé innleitt án þess að nýta undanþágur eða þá að settar séu til viðbótar séríslenskar reglur sem reynast mun meira íþyngjandi en ella gildir innan EES. Þá er innlent regluverk oft rökstutt með því að kröfur séu sambærilegar og innan ríkja EES en raunin er síðan að slíkt á oft ekki við nokkur rök að styðjast. Niðurstaðan er því að íslenskt regluverk getur löngum verið meira íþyngjandi en regluverk annarra aðildarríkja EES.

Skert samkeppnishæfni, dýrara eftirlit

Dæmin um gullhúðun eru mýmörg. Í Evrópusambandinu kvarta meðalstór fyrirtæki til dæmis sáran yfir þungu regluverki um skil á sjálfbærniskýrslum. Evrópusambandið hefur sjálft áttað sig á að þar var gengið of langt og hyggst létta regluverkið. En við innleiðinguna á Íslandi var gengið enn lengra og þungar byrðar lagðar á meðalstór fyrirtæki, sem sambærilegur atvinnurekstur í ESB þarf ekki að bera. Við innleiðingu persónuverndarreglna ESB var gengið lengra en þörf var á og heimildir til undanþágna ekki nýttar. Sömu sögu er að segja af innleiðingu reglna um skil ársreikninga; þar eru lagðar miklu þyngri byrðar á lítil fyrirtæki en Evrópureglurnar kröfðust. Oft verða þessar séríslensku kröfur til af því að embættismönnum finnst að ef EES-reglurnar væru innleiddar með ívilnandi hætti, næðu þær ekki til nógu margra fyrirtækja á okkar litla markaði. Þá er bæði horft framhjá því að gullhúðunin skerðir samkeppnishæfni og að strangari reglur um eftirlit útheimta meiri mannskap og hærri kostnað hjá stjórnsýslunni.

Gullhúðun reglna í landbúnaði

Í landbúnaðinum sérstaklega má nefna ýmis dæmi um gullhúðun. Innleiðing Evrópureglugerðar um búfjármerkingar var innleidd án þess að samhliða væri tekin upp séríslenska reglugerðin. Þá er kveðið á um viðveru dýralækna í sláturhúsum hér á landi við hverja slátrun á meðan heimild og lenskan er ytra að starfsmaður sláturhússins undir eftirliti dýralæknis sinni því hlutverki að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Um er að ræða gífurlega mikinn aukakostnað sem hefur bein áhrif á samkeppnishæfni innlendra framleiðenda. Kröfur til fjarlægðar milli eldishúsa og annarra húsa eru t.d. langtum strangari hér á landi og framkvæmdir háðar mun ítarlegra mati en ella gerist innan ríkja EES. Í Evrópuregluverkinu eru t.a.m. engar lágmarksfjarlægðir milli húsa og aukinheldur engin krafa um aðkomu sveitarstjórnar að ákvörðun þess efnis. Ennfremur liggur fyrir að gerðar eru mun ríkari kröfur til lágmarkslegurýmis fráfæru-, eldis- og sláturgrísa en gilda almennt innan Evrópu, án þess að það liggi fyrir að slíkt hafi mælanlegan ávinning fyrir velferð dýranna og svona mætti áfram telja.

Einföldun regluverks ESB þarf að skila sér hratt

Síðasta áratuginn eða svo hafa ýmsir ráðherrar og ríkisstjórnir skorið upp herör gegn reglugerðarfarganinu og heitið því að einfalda regluverk. Til þessa hefur lítið orðið úr þeim fyrirheitum og reglugerðarfrumskógurinn þykknar stöðugt. Nú er orðið tímabært að láta verkin tala. Eitt af því sem ríkisstjórnin þarf að hafa augun á, er að Evrópusambandið hefur boðað verulega einföldun á regluverki atvinnurekstrar, þar á meðal í landbúnaði og matvælaframleiðslu, í þágu bættrar samkeppnishæfni evrópsks atvinnulífs. Það skiptir máli að sú aflétting reglubyrði skili sér hratt í íslenska löggjöf og að embættis- og stjórnmálamenn standist freistinguna til gullhúðunar. Ekki síður þarf að vinda ofan af þeirri gullhúðun sem hefur átt sér stað undanfarin ár.

Frægt er orðið þegar forsætisráðherrann, þá verðandi, sveiflaði sleggju og hét því að berja niður vextina. Í því verkefni á hún sannarlega stuðning bæði Bændasamtakanna og Félags atvinnurekenda. Hvorki búrekstur né annar atvinnurekstur getur til langframa búið við núverandi vaxtakostnað. Kristrún þarf auk sleggjunnar líka góða vélsög til að byrja að saga niður reglugerðarfrumskóginn.

Trausti er formaður Bændasamtaka Íslands.

Ólafur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda




Skoðun

Sjá meira


×