Sport

Býður sig ó­vænt fram til for­seta fyrst kvenna

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Laura Villars stefnir á forsetastól FIA.
Laura Villars stefnir á forsetastól FIA. Kym Illman/Getty Images

Ung svissnesk kona að nafni Laura Villars hefur tilkynnt óvænt framboð til forseta alþjóðaakstursíþróttasambandsins, FIA. Hún er fyrsta konan sem býður sig fram til embættisins og stefnir á að steypa ríkjandi forseta af stóli.

Hin 28 ára gamla Laura er lítt þekkt en hefur keppt í akstursíþróttum alveg frá fjórtán ára aldri. Hún býður sig fram undir formerkjum aukins lýðræðis, gagnsæis og jafnréttis.

„Einnig til að opna dyrnar fyrir konur og ungt fólk. Ég trúi því að akstursíþróttirnar þurfi meiri fjölbreytni og nýsköpun til að veita yngri kynslóðunum innblástur“ segir Laura.

Framboð hennar verður formlega staðfest þegar frestur til að tilkynna framboð rennur út þann 24. október. Kosið verður svo um nýjan forseta á aðalþingi FIA þann 12. desember í Úsbekistan.

Sitjandi forsetinn Mohammed Ben Sulayem virtist lengi ætla að verða sá eini í framboði en breytingar hafa orðið þar á. Auk Lauru hefur Tim Mayer tilkynnt framboð en hann er 59 ára gamall reynslubolti og hefur sinnt fjölmörgum störfum innan sambandsins.

Carlos Sainz eldri, faðir Formúlu 1 ökuþórsins Carlos Sainz yngri, hafði einnig hug á framboði en hætti við.

Forsetatíð Ben Sulayem hefur einkennst af miklum hneykslum og alvarlegum ásökunum, sem hann var síðan hreinsaður af. Á síðasta ári var hann sakaður um að hafa hagrætt úrslitum í Formúlu 1 og að hafa reynt að koma í veg fyrir að keppni færi fram í Las Vegas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×