Fótbolti

Cecilía hélt hreinu og Inter komst á­fram

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Cecilía Rán var öryggið uppmálað í marki Inter. 
Cecilía Rán var öryggið uppmálað í marki Inter.  Image Photo Agency/Getty Images

Cecilía Rán Rúnarsdóttir hélt marki Inter hreinu í 1-0 sigri á útivelli gegn Hibernian í Skotlandi. Inter vinnur einvígi liðanna því samanlagt 5-1 og kemst áfram í umspil um sæti í Evrópubikarnum.

Karólína Lea Viljálmsdóttir var einnig í byrjunarliði Inter en var tekin af velli á 62. mínútu. Masa Tomasevic leysti hana af og setti sigurmark Inter í uppbótartíma.

Inter er næst á leið í tveggja leikja umspilseinvígi upp á sæti í Evrópubikarnum, sem er ný keppni í kvennaboltanum.

Dregið verður um andstæðinga á föstudaginn en þar verður Breiðablik einnig í pottinum.

Rólegt hjá Loga og naumur sigur hjá Daníel

Íslendingar voru í eldlínunni annars staðar í kvöld.

Logi Tómasson var í byrjunarliði Samsunspor, sem gerði 0-0 jafntefli við Kasimpasa í fimmtu umferð tyrknesku úrvalsdeildarinnar. Loga var skipt af velli eftir sjötíu mínútur.

Daníel Tristan Guðjohnsen spilaði síðan síðustu tíu mínúturnar í 0-1 sigri Malmö gegn Olympic í sænsku bikarkeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×