Erlent

Bein út­sending: Rauða dreglinum rúllað út fyrir Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar á göngu um Windsor í morgun. Öryggisgæsla er mjög mikil í bænum.
Lögregluþjónar á göngu um Windsor í morgun. Öryggisgæsla er mjög mikil í bænum. AP/Alberto Pezzali

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og eiginkona hans Melanía munu í dag hitta Karl Bretakonung og aðra úr konungsfjölskyldunni í dag, eftir að þau ferðuðust til Bretlands í gær. Rauði dregillinn hefur verið dreginn út fyrir forsetann og er búist við miklum pomp og prakt vegna heimsóknarinnar.

Í senn er búist við mótmælum vegna heimsóknar Trumps. Trump verður þó væntanlega lítið var við það, þar sem heimsóknin mun í raun ekki fara fram fyrir allra augum.

Dagskráin í gróum dráttum:

Óljóst er nákvæmlega hvenær dagskráin hefst en fyrst munu Trump hjónin hitta þau Vilhjálm Bretaprins og Katrínu hertogaynju í Windsor. Í kjölfarið mæta Karl konungur og Kamilla Bretadrottning.

Fjölmargir hermenn munu standa heiðursvörð, þann stærsta sem kallaður hefur verið saman í opinberri heimsókn, og hleypa af byssum á þessum viðburði.

Sjá einnig: Trump fær konunglegar móttökur í Bretlandi

Í kjölfarið fara þau svo í sameiginlegan hádegisverð í kastalanum.

Seinni partinn í dag munu forsetahjónin heimsækja grafhýsi Elísabetar drottningar og fara svo aftur til Windsor, þar sem herþotum, bæði breskum og bandarískum, verður flogið yfir.

Formlegur kvöldverður mun svo eiga sér stað í kastalanum í kvöld, þar sem bæði konungurinn og Trump munu halda ræður.

Á morgun mun Trump svo funda með Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands.

Fylgjast má með beinni útsendingu frá Lundúnum í dag í báðum spilurnum hér að neðan. Sá efri er frá Sky News, þar sem fjallað er um vendingar dagsins, en sá neðri er frá AP fréttaveitunni, þar sem umfjöllun er minni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×