Körfubolti

Þjóð­verjar í úr­slit EM í fyrsta sinn í tuttugu ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Finnska vörnin réði lítið við Dennis Schröder sem skilaði 29 framlagsstigum í dag.
Finnska vörnin réði lítið við Dennis Schröder sem skilaði 29 framlagsstigum í dag. epa/TOMS KALNINS

Þýskaland er komið í úrslit Evrópumóts karla í körfubolta eftir sigur á Finnlandi, 98-86, í Ríga í Lettlandi í dag. Þetta er í fyrsta sinn í tvo áratugi sem Þjóðverjar komast í úrslit EM.

Finnar byrjuðu leikinn betur en eftir að hafa skorað tíu stig í röð um miðjan 1. leikhluta náðu Þjóðverjar undirtökunum og létu þau ekki af hendi það sem eftir lifði leiks.

Þjóðverjar hittu úr fjörutíu prósent þriggja stiga skota sinna og skoruðu fimmtán stig eftir að Finnar höfðu tapað boltanum.

Dennis Schröder fór mikinn í liði Þýskalands. Hann skoraði 26 stig, tók fimm fráköst og gaf tólf stoðsendingar, þar af sjö í 1. leikhluta. Franz Wagner skoraði 22 stig, Tristan Da Silva þrettán og Daniel Thies skilaði tíu stigum og ellefu fráköstum.

Oliver Nkamhoua skoraði 21 stig og tók níu fráköst í finnska liðinu og aðalstjarna þess, Lauri Markkanen, skoraði sextán stig og tók átta fráköst.

Þýskaland komst síðast í úrslit EM 2005. Þá tapaði liðið fyrir Grikklandi, 62-78. Þjóðverjar unnu HM fyrir tveimur árum og vinni þeir annað hvort Grikki eða Tyrki í úrslitaleik EM á sunnudaginn verða þeir bæði ríkjandi heims- og Evrópumeistarar. Þýskaland varð Evrópumeistari í fyrsta og eina sinn á heimavelli 1993.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×