Innlent

Starfs­fólk Alcoa vilji setja fyrir­tækinu mörk

Eiður Þór Árnason skrifar
Álver Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. 
Álver Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði.  Vísir/Arnar

Félagsmenn AFLs starfsgreinafélags og Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ) sem starfa í álveri Alcoa á Reyðarfirði munu greiða atkvæði um verkfall. Verkalýðsfélögin hafa átt í kjaradeilu við fyrirtækið um nokkurt skeið og funduðu með félagsfólki sínu og starfsfólki Alcoa síðustu tvo daga. 

Í yfirlýsingu frá AFLi starfsgreinafélagi og RSÍ segir að félagsfólk hafi verið skýrt í afstöðu sinni, „tilbúið að setja fyrirtækinu mörk“ og krefjist sambærilegra kjarabóta og samið hafi verið um í öðrum stóriðjum á Íslandi.

„Á öllum fundunum var einróma samþykkt að boða til atkvæðagreiðslu um verkfall og hafa félögin þegar hafið undirbúning þess,“ segir í yfirlýsingu verkalýðsfélaganna.

Kjaradeilunni var vísað til ríkissáttasemjara í apríl síðastliðnum en í lok ágúst höfnuðu AFL og RSÍ tilboði Alcoa og hófu undirbúning atkvæðagreiðslu um verkfall. 

Eigendur álversins forðist að taka þátt í viðræðunum

„Það er ljóst að eigendur Alcoa eru ekki tilbúnir að tryggja sömu launahækkanir og sambærileg kjör og gilda í öðrum álverksmiðjum á Íslandi,“ gáfu fulltrúar verkalýðsfélaganna út þegar ákvörðun var tekin um að hafna tilboði Alcoa 29. ágúst. Ekki yrði skrifað undir kjarasamning sem tryggði lakari kjör eða minni launahækkanir en samið hafi verið um í hinum álverunum. 

Þá gagnrýndu forsvarsmenn AFL og RSÍ að samninganefndir hafi einungis fengið að ræða við „umboðslausa aðila“ með takmarkað umboð til samninga á meðan erlendir eigendur álversins forðist að taka þátt í kjaraviðræðunum, eins og það var orðað í yfirlýsingu.

Fréttin er í vinnslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×