Erlent

Evrópuleiðtogar funda um öryggistryggingar fyrir Úkraínu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það fór vel á með Macron og Selenskí í París í gær.
Það fór vel á með Macron og Selenskí í París í gær. Getty/Anadolu/Mustafa Yalcin

Um það bil 30 þjóðarleiðtogar taka nú þátt í ráðstefnu í París, um öryggistryggingar til handa Úkraínu. Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, stýra fundum en margir eru sagðir taka þátt í gegnum fjarfundarbúnað.

Donald Trump Bandaríkjaforseti er sagður munu ræða við helstu leiðtoga eftir fundarhöldin en áhersla hefur verið lögð á að freista þess að fá Bandaríkjamenn til að eiga aðkomu að málum. Trump hefur áður sagt að Bandaríkin væru mögulega reiðubúin til að styðja við friðargæslu- eða herlið úr lofti.

Mark Rutte, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði fyrir fundinn að markmiðið væri að skýra hvað bandamenn Úkraínu í Evrópu hefðu fram að færa, til að greiða fyrir viðræðum um mögulega þátttöku Bandaríkjanna.

BBC hefur eftir heimildarmanni innan franska stjórnkerfisins að markmið öryggistrygginganna yrði þríþætt; að styrkja hersveitir Úkraínu, að styðja þær með utanaðkomandi herliði til að taka af allan vafa um afstöðu Evrópu og að fá Bandaríkjamenn að borðinu.

Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti sagðist í aðdraganda fundarhaldanna í dag að hann hefði fengið „merki“ frá Bandaríkjastjórn að þau myndu koma einhvern veginn að málum.

Greint hefur verið frá því að Selenskí muni eiga fund með Steve Witkoff, sendifulltrúa Bandaríkjaforseta, á hliðarlínum ráðstefnunnar.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði fyrr í vikunni að það væri ljós við enda ganganna en Rússar hafa hins vegar ekkert slegið af kröfum sínum og vilja sjálfir koma að því að tryggja öryggi Úkraínu, eins furðulega og það hljómar.

Rutte sagði hins vegar í morgun að Rússar hefðu alls ekkert neitunarvald þegar kæmi að viðveru erlends herliðs í Úkraínu. „Af hverju ættum við að hafa áhuga á því hvað Rússum finnst um herlið í Úkraínu? Þetta er sjálfstætt ríki. Það er ekki þeirra að ákveða.“

Trump sagðist í samtali við CBS News í gær enn eiga í góðum samskiptum við bæði Pútín og Selenskí og að hann stefndi enn á að leysa málið, eins og hann hefur ítrekað lofað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×