Viðskipti innlent

Spáir enda­lokum Play á Ís­landi: „Fjár­festar voru lokkaðir að stofnun þessa fé­lags“

Árni Sæberg skrifar
Jón Þór Þorvaldsson er formaður FÍA.
Jón Þór Þorvaldsson er formaður FÍA. Vísir/Arnar

Formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna spáir því að rekstur flugfélagsins Play hér á landi sé feigur. Fjárfestar hafi verið lokkaðir að stofnun félagsins, meðal annars á þeim forsendum að til stæði að stunda félagslegt undirboð.

Jón Þór Þorvaldsson, formaður FÍA, var til viðtals í Bítinu á Bylgjunni í morgun vegna málefna flugfélagsins sáluga Bláfugls. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta á dögunum eftir að hafa verið dæmt til greiðslu skaðabóta til handa flugmönnum sem unnu hjá félaginu. Jón Þór segir ólíklegt að skaðabæturnar fáist greiddar úr þrotabúinu.

Á vef FÍA er ítarlega fjallað um málið og þar segir meðal annars að í málinu kristallist nokkrar af þeim meinsemdum sem herja á íslenska flugmenn. Í aðgerðum sínum hafi Bláfugl farið freklega á svig við kjarasamninga og grundvallarreglur íslensks vinnumarkaðar. Svipuð viðleitni hafi sést með gerð gervikjarasamninga við flugfólk Play. 

Flugmenn geti ekki verið verktakar

Launþegum sé skipt út fyrir gerviverktaka, þrátt fyrir að augljóst sé að flugmaður geti ekki samkvæmt skilgreiningu starfað sem verktaki. Úrræði launþega og stéttarfélaga til að sporna við þessari þróun séu fá og seinvirk. Stjórnvöld hafi ekki spyrnt við fæti með afgerandi hætti. Íslensk flugfélög leigi inn flugmenn í gegnum erlendar starfsmannaleigur en Vinnumálastofnun hafi neitað að skrá þær í samræmi við lög um starfsmannaleigur. Stofnunin hafi heldur ekki tryggt að þessum flugmönnum sé greitt samkvæmt kjarasamningi, eins og lögin kveði á um. 

„Félagslegum undirboðum og gerviverktöku er þannig leyft að viðgangast án nokkurra afskipta með tilheyrandi tjóni fyrir íslenska launþega. Helstu rök Vinnumálastofnunar hafi verið þau að verið sé að leigja verktaka en ekki launþega. Ekki þurfi að kafa djúpt til að sjá að hér er um augljósa gerviverktöku að ræða. Nægir þar að nefna að flugmenn mæta augljóslega ekki með sín tæki og tól til vinnu og stjórna ekki vinnutíma sínum sjálfir.“

Sporin hræði

Þá segir að eins og þekkt er vinni Play nú að því að flytja starfsemi sína að mestu til Möltu og auglýst sé eftir flugmönnum til verktakavinnu þar í landi. Því hafi verið lýst yfir að íslensku flugrekstrarleyfi muni í kjölfarið verða lagt niður. Þar minni margt á þá atburðarrás sem Bláfugl hrinti af stað og því eðlilegt að spurt sé hvað verði um þá íslensku launþega sem þar starfa og réttindi þeirra. 

„Munu þeir að lokum þurfa að sækja rétt sinn fyrir dómsstólum og sitja eftir með sárt ennið ef félagið verður lýst gjaldþrota hér á landi?“

Félagslegt undirboð forsenda Play

Jón Þór segir að í þessu samhengi hafi FÍA miklar áhyggjur af Play. Við stofnun félagsins árið 2021 hafi gaumgæfilega farið yfir það í fjárfestakynningu hvernig starfsmannamálum yrði háttað í félaginu.

„Þarna eru fjárfestar lokkaðir að stofnun þessa félags, meðal annars lífeyrissjóðirnir, á þeim forsendum að það standi til að fara í félagsleg undirboð, hlækka laun um 19 til 37 prósent og rýra kjör þeirra sem munu starfa hjá félaginu. Þetta átti að vera íslenskt flugfélag með tengihöfn á Íslandi, íslenskar áhafnir og allt þetta. Þetta átti að ganga svolítið í augun á okkur Íslendingum, að fá nýtt flugfélag. Ekki misskilja mig, ég fagna samkeppni. Við viljum samkeppni en það þarf þá að vera eftir sömu leikreglum. Við getum ekki farið í fótboltaleik og einn mætir í takkaskóm en hinn á fjórhjóli.“

Verið að selja í ferðir sem verða ekki flognar

Þá segir hann að nú sé staðan sú að Play sé að selja í ferðir sem verði ekki flognar. Búið sé að tilkynna um að hætt verði að fljúga á Bandaríkin en enn sé selt í slíkar ferðir.

„Þeir eru að segja að þeir ætli að skila inn flugrekstrarleyfinu þannig að það verður ekki lengur tengihöfn hér á Íslandi og það verða færri vélar. Þetta verða ekki íslenskar áhafnir. Það er verið að flytja félagið úr landi í raun og veru til þess að ráða fólk á lægri launum, sem gengur reyndar ekki vel, niðri í Austur-Evrópu.“

En þú talaðir áðan eins og Play væri að fara í gjaldþrot?

„Já, ég held að það sjái það allir félagið sem er á Íslandi, félagið sem er skráð á Möltu verður kannski áfram til, en félagið sem er skráð í Kauphöll það ætlar allavega að skila inn flugrekstrarleyfinu þannig að það verður ekki flugrekandi. Hvað verður það þá? Verður þetta ferðaskrifstofa? Nei. Verður þetta farmiðasala? Líklega, já. En hver er þá ábyrgðin gagnvart neytandanum?“

Jón Þór játar því að því verði tekið illa að hann, sem formaður FÍA, tali um það að íslenskt flugfélag stefni á hausinn. Hann skorar á þá sem gagnrýna þau orð að rýna í ársreikninga Play, hann lesi ekki annað úr þeim en að félagið stefni í gjaldþrot.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×