Erlent

Sviptir Harris vernd

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trupm og Kamala Harris.
Donald Trupm og Kamala Harris. AP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur fellt úr gildi eldri forsetatilskipun Joes Biden, forvera síns, um að lífverðir forsetans verji Kamölu Harris, fyrrverandi varaforseta og mótframbjóðanda Trumps. Varnir hennar höfðu verið framlengdar af Joe Biden.

Þessa dagana er Harris að hefja ferðalag um Bandaríkin þar sem hún mun kynna nýja bók sína og verður hún því mikið meðal almennings og það í fyrsta sinn frá því Donald Trump settist aftur að í Hvíta húsinu.

Síðan þá hefur Harris ekki sótt marga opinbera viðburði.

Forsetar eru varðir af lífvörðum embættisins þar til þeir deyja.

Samkvæmt lögum verja lífverðir forsetans varaforseta í sex mánuði eftir að þeir láta af embætti og lauk því tímabili þann 21. júlí. Sérstakar áhyggjur voru þá uppi um öryggi hennar og að stórum hluta vegna þess að hún var fyrsta konan og fyrsta svarata konan til að gegna embætti varaforseta. Þá jukust þær áhyggjur eftir að hún varð mótframbjóðandi Trumps.

Joe Biden skrifaði því undir forsetatilskipun undir lok forsetatíðar sinnar um að Harris myndi njóta verndar í ár til viðbótar. Sú tilskipun var aldrei opinberuð en Trump felldi hana úr gildi í gær, samkvæmt frétt CNN.

Skipun Trumps tekur gildi þann 1.september.

Í yfirlýsingu til miðilsins þakkar Harris lífvörðum forsetans fyrir fagmennsku þeirra og þjónustu.

Með þessu missir Harris ekki eingöngu lífverði heldur einnig umfangsmikla greiningu og eftirlit með mögulegum ógnum gegn öryggi hennar og heilsu. Þá missir hún einnig eftirlit með heimili hennar í Los Angeles.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×